Þórólfur telur of snemmt að tala um Delta-bóluefni

Þórólfur segir ljóst að einhver stýring þurfi að vera á …
Þórólfur segir ljóst að einhver stýring þurfi að vera á smitunum. „Hvaða tala er það? er það þessi tala, hundrað smit á dag?,“ veltir Þórólfur fyrir sér en virðist ekki hafa svarið á reiðum höndum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hvetur fólk til að þiggja bólusetningu sem stendur því til boða. Hann segir að samvinna margra þátta myndi hjarðónæmi en útbreiðsla smita sé einn þeirra. Tryggja þurfi að spítalinn ráði við ástandið, sem hann nú gerir en það fer eftir því hvort kúrfan sé á niðurleið, hvort við getum farið að „anda léttar“.

Þórólfur segir góðar vonir bundnar við að örvunarskammtur og jafnvel þriðji skammturinn örvi ónæmiskerfið vel, bæði gegn smitum og alvarlegum einkennum. „Það er því til mikils að vinna fyrir alla að fá þessa auknu vernd.“ 

Mikilvægt að horfa ekki bara á skírteinið

Þeir einstaklingar sem fengu bóluefni Janssen gegn Covid-19 eru skilgreindir sem fullbólusettir og geta fengið vottorð samkvæmt því. Þeim verður þó boðinn örvunarskammtur í næstu viku og einhverjir hafa nú þegar fengið örvunarskammt.

Þórólfur segir mikilvægt að fólk horfi ekki bara á bólusetningarskírteinið heldur mæti í endurbólusetningu. Tæplega helmingur smitaðra var bólusettur með Janssen-bóluefninu. Það sé því bæði til að auka eigin vernd og samfélagsins, sem þessir einstaklingar ættu að þiggja örvunarskammt.

Hann hvetur jafnframt óbólusetta til að mæta í bólusetningu því alvarlegustu veikindin séu bersýnilega hjá þeim sem ekki hafa verið bólusettir.

„Ef veiran er að ganga í samfélaginu eykst ónæmið“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, talaði í gær um að hjarðónæmi náist ekki nema með útbreiðslu smita. Kamilla S. Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, telur betra að bíða eftir sérstöku bóluefni við Delta-afbrigðinu og ná svo hjarðónæmi með því að bólusetja þjóðina með því.

Þórólfur segir að það sé ekki verið að vinna eftir einni leið heldur séu margar leiðir notaðar til þess að ná markmiðinu um hjarðónæmi. Það sé ljóst að bólusetning með þeim bóluefnum sem nú standa til boða, muni ekki skila hjarðónæmi á eigin spýtur, Bólusetningin virðist þó vernda gegn smitum í 50 prósentum tilfella.

„Nú erum við að nýta endurbólusetningu og auka ónæmið í samfélaginu með því. Ef veiran er að ganga í samfélaginu þá eykst ónæmið líka,“ segir Þórólfur. Hann bendir á að á meðan fólk hefur verið að smitast eftir bólusetningu sé fátítt að fólk endursmitist ef það var búið að fá veiruna í sig.

Snýst um hvort spítalinn ráði við ástandið

„Við viljum alls ekki að smitin nái mikilli útbreiðslu þannig að heilbrigðiskerfið ráði ekki við það og viðkvæmir hópar veikist alvarlega.“ Þórólfur segir það því ljóst að einhver stýring þurfi að vera á smitunum. „Hvaða tala er það? er það þessi tala, hundrað smit á dag?,“ veltir Þórólfur fyrir sér en virðist ekki hafa svarið á reiðum höndum.

Spurningin snýr mikið að því hvort spítalinn ráði við ástandið. „Það er mikið álag á spítalann en forsvarsmenn hans telja að þeir ráði við ástandið eins og það er núna,“ segir Þórólfur. Stjórnvöld þurfi því að vega og meta hvort þau vilji grípa til harðari aðgerða til að ná kúrfunni niður og minnka álagið enn frekar, eða hvort þau telji ákjósanlegra fyrir samfélagið allt að grípa ekki til harðari aðgerða.

„Við erum að ná betra ónæmi með bólusetningu og því átaki sem er í gangi, kannski ekki hjarðónæmi en þó aukið ónæmi, við náum ekki hjarðónæmi í samfélaginu fyrr en veiran hefur hægt og bítandi smitað en ekki með alvarlegum afleiðingum.“

Forsvarsmenn Landspítala segjast ráða við stöðuna eins og hún er …
Forsvarsmenn Landspítala segjast ráða við stöðuna eins og hún er núna. mbl.is/Árni Sæberg

Of snemmt að tala um bóluefnið gegn Delta

Varðandi væntanlegt bóluefni við Delta-afbrigðinu segir Þórólfur að þó það myndi hjálpa mikið, sé of snemmt að tala um það. „Fyrirtækin eru jú að gera einhverjar einhverjar tilraunir en af skilaboðum frá þeim er bara ekki alveg ljóst, finnst mér, hvenær bóluefnin koma á markað og hvaða áhersla verður lögð á framleiðsluna.“

Þórólfur bendir á að við munum þurfa að lifa með veirunni í eitt til tvö ár í viðbót. Við þurfum því að gera upp við okkur hvernig við ætlum að lifa. „Ætlum við að hafa miklar takmarkanir og harðar aðgerðir og halda smitum í lágmarki eða ætlum við að sætta okkur við að það séu einhver smit í gangi?“

Þórólfur vill þó árétta að það sé fjarri lagi að hann tali fyrir því að láta veiruna geisa um landið óáreitta. Það sé mikilvægt að hafa tök á útbreiðslunni svo hægt sé að tryggja að hún yfirkeyri ekki heilbrigðiskerfið eða aðra starfsemi og valdi alvarlegum veikindum.

Stóra spurningin núna sé hvort við séum byrjuð að sjá kúrfuna fara niður aftur. „Þá getum við andað léttar en annars þurfum viðað grípa til aðgerða til að ná betri stjórn á veirunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert