Víða stigið á bremsuna í rafskútuvæðingunni

Rafskútur hafa átt auknum vinsældum að fagna síðustu ár.
Rafskútur hafa átt auknum vinsældum að fagna síðustu ár. mbl.is/Hari

Umsvif rafskútuleiga hafa sjálfsagt ekki farið fram hjá nokkrum manni síðustu mánuði og misseri. Þúsundir rafskúta er að finna á götum og gangstéttum á höfuðborgarsvæðinu og fleiri þéttbýlissvæðum. Sitt sýnist hverjum um ágæti þeirra en bæði hér á á landi og í löndunum í kringum okkur hefur verið mikil umræða um rafskúturnar og hvort hefta eigi aðgengi að þeim og útbreiðslu þeirra. Það hefur víðast hvar verið gert, nema á Íslandi.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum ákváðu borgaryfirvöld í Ósló nýverið að setja takmark á það hversu margar rafskútur mega vera til leigu í borginni en fjöldi rafskúta þar í borg hefur verið einna mestur í Evrópu. Frá og með næstu mánaðamótum verður leyfilegur fjöldi rafskúta minnkaður úr tuttugu og fimm þúsund niður í átta þúsund. Samfara þessu verður bannað að leigja rafskútur frá klukkan ellefu á kvöldin og fram á morgun.

Nýju reglurnar verða innleiddar með þeim hætti að rafskútufyrirtækin þurfa að sækja um leyfi til útleigu. Markmið þessara breytinga er að koma í veg fyrir slys. Telja borgaryfirvöld í Ósló að með því að banna útleigu á skútum á nóttunni megi koma í veg fyrir 300-400 slys á hverju sumri. Norskir læknar hafa upplýst að 57% af rafskútuslysum verði á nóttunni.

Lækkun hámarkshraða og almennt bann við rafskútum

Í Helsinki hefur verið brugðist við gagnrýnisröddum með því að lækka hámarkshraða hjá rafskútum sem leigðar eru á kvöldin og nóttunni. Svíum hefur hins vegar gengið erfiðlega að ná stjórn á rafskútum og reglugerðum er að þeim snúa. Að því er fram kemur í Hufvudstadsbladet eru um 21 þúsund rafskútur til leigu í Stokkhólmi um þessar mundir og hefur þeim fjölgað hratt að undanförnu.

Samkvæmt skoðanakönnun borgarinnar eru borgarbúar frekar neikvæðir í garð rafskútanna. Sex af hverjum tíu kveðjast hafa neikvæða skoðun á þeim en aðeins tveir af hverjum tíu voru jákvæðir. Ástæða þess að erfiðlega hefur gengið að setja skýrar reglur er að rafskútur hafa verið flokkaðar eins og reiðhjól og því myndu boð og bönn einnig bitna á hjólreiðafólki. Nú hefur verið ákveðið að rafskútuleigur þurfi að sækja um leyfi til reksturs hjá lögreglu. Þegar fram í sækir þurfa þau að koma upp geymslustæðum fyrir skúturnar en borgaryfirvöld geta rukkað fyrir leyfisveitingu og afnot af borgarlandi. Vonast borgaryfirvöld í Stokkhólmi til þess að þannig megi koma betri böndum á umfang starfseminnar.

Rafskútur eru auðveldar í notkun en alls ekki hættulausar þrátt …
Rafskútur eru auðveldar í notkun en alls ekki hættulausar þrátt fyrir það. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í Kaupmannahöfn fengu yfirvöld hins vegar nóg af rafskútunum og bönnuðu þær með öllu. „Umferðarreglur voru ekki virtar og það skapaði hættu fyrir alla sem ferðast um borgina,“ er haft eftir Ninnu Hedeager Olsen sem gegnir embætti borgarstjóra á sviði tækni- og umhverfismála í Hufvudstadsbladet og jafnframt að fólk bæði notaði skúturnar undir áhrifum áfengis og gætti ekki að því að leggja þeim sómasamlega. Segir Olsen að plássið sem fór undir rafskúturnar nýtist betur fyrir bekki, útikaffihús og fleira í þeim dúr. Þó að þessi ákvörðun hafi verið umdeild telur hún að rétt leið hafi verið farin. „Við fáum færri slys og öruggari borg,“ segir hún.

Þegar kemur að umfjöllun um rafskútur í Reykjavík er vitnað til Grétars Þórs Ævarssonar, verkefnastjóra á umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar. Í samtali við Hufvudstadsbladet rekur hann að meirihluti borgarbúa sé ánægður með rafskúturnar. Þær séu meira notaðar af ungu fólki og séu gagnlegar því þær geti dregið úr þörf fyrir bíla. Samkvæmt Grétari snýr óánægja með skúturnar helst að hvernig þeim er lagt, að fleiri en einn sé á hverri skútu og hættu á slysum. Sem betur fer hafi ekki komið til alvarlegra slysa að hans sögn.

Grétar segist telja að þótt sambúð þeirra sem nota rafskútur á göngu- og hjólastígum gangi vel hafi verið til umræðu hvort herða eigi reglur um skúturnar. Hann getur þess hins vegar ekki til hvers strangari reglur myndu taka en klykkir út með að hann hafi ekki heyrt af því að lögregla hafi lent í vandræðum með rafskútur og borgaryfirvöld hafi ekki þurft að kalla eftir strangari reglum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert