„Yrði útlægur frá Húsafelli“

Húsafell.
Húsafell. Ljósmynd/Kristín Jónsdóttir

Niðurrif á legsteinahúsi Páls Guðmundssonar myndhöggvara á Húsafelli hófst á föstudag og verður því að fullu lokið fyrir mánaðamót. Íbúar Borgarbyggðar harma þetta mál og margir hafa lýst samkennd sinni með Páli. Sæmundur Ásgeirsson er ósáttur við aðkomu Borgarbyggðar að málinu.

Páll hafði reist húsið á grundvelli deiliskipulags sem var búið að samþykkja af byggingafulltrúa Borgarbyggðar en auglýst undir röngu nafni og röngu landnúmeri.

Sæmundur, nágranni Páls, var ósáttur við þetta deiliskipulag, sem gerði ráð fyrir nokkrum byggingum við sameiginlegt bílastæði inni á hans landi. Sæmundur kærði byggingarleyfið en Páll byggði húsið á grundvelli leyfisins, þrátt fyrir fyrirvara um að það yrði á hans ábyrgð í ljósi þess að leyfið væri í kæruferli, að því er kom fram í niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands.

Þrjár „óaðgengilegar“ kröfur

Páli var gert að fjarlægja húsið á eigin kostnað. Í færslu Páls á facebook síðu sinni segir hann niðurstöðuna hafa valdið sér mikilli sorg og vanlíðan. Sæmundur hafi gefið sér von um að málið yrði leyst með samkomulagi en kröfur hans hafi verið óaðgengilegar með öllu.

Sæmundur segir að ekki hafi verið um kröfur að ræða heldur samningsdrög þar sem fæstar tillögur snúi að Páli en stærstur hluti þeirra að Borgarbyggð og varði aðallega skipulagsmál en einnig bótakröfu. Það sem snerti Pál var þrennt: bílastæði á landi Sæmundar yrði ekki lengur sameiginlegt, hámarksfjöldi yrði settur á daglegar heimsóknir í legsteinaskálann og Sæmundur yrði ekki gerður ábyrgur fyrir legsteinum sem hann hafði fengið að láni.

Í greinargerð frá Borgarbyggð kemur fram að sveitarfélagið hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að leysa málið í samráði við Pál og Sæmund. Meðal annars hafi þeim verið boðið að taka þátt í gerð sameiginlegs deiliskipulags sem Borgarbyggð myndi hafa milligöngu um og greiða fyrir gerð og undirbúningsvinnu þess.

Páll hefur hlotið mikla samkennd

Viðbrögðin við færslu Páls á facebook hafa verið gífurleg en fleiri en 1.400 manns hefur líkað við færsluna, fleiri en 500 deilt henni og við hana má finna fleiri en 400 ummæli þegar þessi frétt er skrifuð. Páli er þar sýnd mikil samkennd. Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar, segir fólk í Borgarbyggð harma það að ekki hafi tekist að ná samkomulagi enda sé þetta leiðinlegt mál með öllu.

Spurður hvaða áhrif Sæmundur telji að það muni hafa að niðurrif sé hafið og húsið verði fjarlægt segir hann erfitt að spá fyrir um óorðna hluti. „Vonandi verður þetta til þess að vinna við nýtt skipulag hefjist og Borgarbyggð fari að lögum í þetta skiptið, en sporin hræða.“

Sæmundur segir að sveitungur hans hafi komið í heimsókn til hans fjórum sinnum eftir dóminn og lýst því yfir að hann yrði útlægur frá Húsafelli og ólíft á hans heimili og vinnustað gefi Sæmundur ekki eftir varðandi skilyrði fyrir því byggingarnar fái að vera og dragi dóminn að fullu til baka.

Þykir aðkoma sveitarstjórnar einkennast af hlutdrægni

Sæmundi þykir aðkoma byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa, sveitarstjóra og sveitarstjórnar Borgarbyggðar að málinu einkennast af mikilli hlutdrægni. Hann segir að nýjasta dæmið um þessa hlutdrægni snúi að útgáfu rekstrarleyfis fyrir gistiheimilið Gamla bæ, sem hann rekur.  Sveitarstjóri hafi neitað að gefa jákvæða umsögn þannig að nýtt rekstrarleyfi fengist.

Þórdís segir um þetta að sveitarfélagið hafi metið það ófært að veita skilyrðislausa jákvæða umsögn vegna beiðni um ótímabundið rekstrarleyfi fyrir Gamla bæ, þar sem það væri ekki í samræmi við aðalskipulag. Var lagt til að rekstrarleyfismálið yrði leyst með þeim hætti að Gamli bær fengi rekstrarleyfi til bráðabirgða, sem Sæmundur sótti um í framhaldinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert