Páll Guðmundsson, myndhöggvari á Húsafelli, kallar sjálfan sig fórnarlambið í deilum Sæmundar Ásgeirssonar og Borgarbyggðar, í nýrri færslu sem hann birti á facebooksíðu sinni.
Á morgun klukkan tvö verður þakið tekið af húsi því er hýst hefur legsteinasafn Páls. Þar með verður dómi þeim er féll í málinu fullnustað en á tímabili voru vonir bundar við að samkomulag myndi nást á milli Páls og Sæmundar.
Sæmundur lagði fram samningsdrög sem Páll taldi sig ekki geta orðið við þar sem kröfurnar væru honum með öllu óaðgengilegar. Í færslu sinni gerir hann nú betur grein fyrir þeirri afstöðu sinni.
„Ég held að allir sem til þekkja geri sér grein fyrir að útilokað var, bæði fyrir mig og Borgarbyggð, að ganga að þessum afarkostum Sæmundar,“ skrifar hann.
Þær kröfur sem sneru að Páli voru þær að hámarksfjöldi yrði settur á gesti þá sem heimsóttu legsteinaskálann. Sameiginlegt bílastæði þeirra yrði gert að einkaeign Sæmundar og Páll skyldi heimila Sæmundi að leggja veg í gegnum land hans að fyrirhugaðri sumarhúsabyggð í sínu landi. Páll skyldi einnig rétta hlut Sæmundar í tengslum við skil á tilteknum legsteinum.
Þá voru einnig kröfur sem sneru að Borgarbyggð, bæði bótakrafa og krafa um varanlegt rekstrarleyfi fyrir gistihús Sæmundar. Páll bendir á að það hafi ekki verið á hans valdi að bregðast við þeim kröfum og þær því óaðgengilegar.
Páll er ekki sáttur við aðkomu Borgarbyggðar að málinu, frekar en Sæmundur. Báðum þykir sveitarfélagið hafa sýnt hlutdrægni í þágu hins.
„Fyrir mér lítur svo út að Borgarbyggð hafi tekið afstöðu með Sæmundi enda hefur hann fengið jákvæða umsögn Borgarbyggðar um ótímabundið „bráðabirgða“ rekstarleyfi fyrir gistihús sitt, sem sýslumaður gaf og út.“