Hafa þurft að fækka legurýmum

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. Ljósmynd/mbl.is

Að manna Landspítalann með menntuðu fagfólki í samræmi við mannaflaþörf hefur verið áskorun árum saman, að því er segir í áskorun fagráðs Landspítalans til stjórnvalda á vefsíðu hans.  

Þar segir sömuleiðis að til þess hefur komið að þurft hefur að fækka legurýmum vegna manneklu. 

„Síðastliðið ár hefur bæst við fordæmalaust álag. Á meðan Covid-bylgjur ganga yfir í samfélaginu er mörgu ýtt til hliðar á Landspítalanum til að takast á við heilsufarslegar afleiðingar faraldursins.

101 prósent nýting

Í maí 2021 var rúmanýting á meðferðarsviði á Landspítala hvergi undir 96%, þar sem æskileg rúmanýting á bráðasjúkrahúsi er 85%.

Á smitsjúkdómadeild er rúmanýting í maí 99%, en það er deildin sem tekur fyrst við sjúklingum með Covid. Þegar hún er orðin full þá er Lungnadeild A6 breytt í Covid deild og þar er rúmanýting í maí 101%,“ segir í áskoruninni.

Eins greint hefur verið frá undanfarna daga og vikur hefur gengið erfiðlega að manna vaktir Landspítalans í sumar og hafa starfsmenn verið beðnir um að snúa aftur úrsumarleyfi. Þá tók Betri vinnutími – stytting vinnuviku vaktavinnufólks, gildi þann 1. maí.

Í áskoruninni segir að svigrúm sé til þess að hlúa betur að starfsfólki spítalans. 

„Fagráð Landspítala leggur áherslu á að stjórnvöld, sem og stjórnendur Landspítala, leiti allra leiða við að veita starfsfólki viðunandi vinnuaðstæður t.d. með því að skapa umhverfi þar sem ekki er þörf á að kalla fólk inn úr sumarfríum og að alltaf sé tryggt að ekki sé gengið á réttindi fólks," segir í áskoruninni. 

„Til þess að þetta sé hægt þarf að fara í verulega uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu öllu. Stofnanir þurfa að vinna þétt saman. Það þýðir ekki að hika lengur, búið er að benda á vandann í mörg ár, nú sem aldrei fyrr er tækifæri til úrbóta.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert