„Það er núna í höndum Reykjavíkurborgar að koma með útboðsgögn á ný. Ég myndi ætla að það yrði í lok ágúst eða byrjun september,“ segir Birgir Bárðarson, framkvæmdastjóri Laugardalshallarinnar.
Útlit er fyrir að viðgerðir á Laugardalshöll tefjist enn frekar en áætlað var, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Sem kunnugt er sprakk heitavatnslögn í húsinu í nóvember á síðasta ári og vatn flæddi um húsið. Skipta þarf um gólfefni og nota á tækifærið til að endurnýja lýsingu. Gert hafði verið ráð fyrir því að raunhæft væri að íþróttastarf gæti hafist á ný í Laugardalshöll í nóvember en eftir að útboðsferli Reykjavíkurborgar á ljósabúnaði var kært í tvígang er ljóst að það mun ekki standast. „Ég myndi áætla að þetta þýddi seinkun upp á alla vega einn og hálfan til tvo mánuði. Þá erum við að horfa á desember eða janúar, það er ekki vanáætlað,“ segir Birgir
Þrjú tilboð bárust í endurnýjun lampabúnaðar og stillinga síðasta vor. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á rúmar 20 milljónir króna og átti Rafkaup lægsta boð, tæpar 17 milljónir. Tilboði Johan Rönning upp á tæpar 27 milljónir króna var hins vegar tekið.