Hrefna Sætran, eigandi Fiskmarkaðarins, Grillmarkaðarins og Skúla Craft Bar, segir að veitingamenn séu orðnir öllu vanir þegar sóttvarnaaðgerðir eru annars vegar. Hún segir að áframhaldandi aðgerðir séu betri kostur en hvernig aðgerðir hafi verið áður.
„Ég er bara ánægð að aðgerðir hafi ekki verið hertar frekar.“
Hrefna segir að það sem hrjái veitingamenn nú sé helst hversu margir eru í sóttkví ásamt eins metra reglunni.
„Það þyrfti að rýmka eitthvað til í því. Fólk sem er bólusett þyrfti kannski ekki að fara í sóttkví,“ segir Hrefna í Morgunblaðinu í dag og nefnir að talsverð mannekla sé í geiranum vegna þess hversu margir séu í sóttkví.
Þá kemur eins metra reglan í veg fyrir að staðirnir geti starfað að fullu. Hún segir þó að nóg hafi verið að gera síðan reglur voru hertar 23. júlí og nefnir að ferðamenn leiki þar stórt hlutverk.