Smit greindist á leikskólanum Sólbrekku

Sólbrekka er stærsti leikskóli landsins.
Sólbrekka er stærsti leikskóli landsins. mbl.is/Golli

Kórónuveirusmit greindist hjá starfsliði leikskólans Sólbrekku á Seltjarnarnesi, stærsta leikskóla landsins, og þurfa foreldrar barna á Bakka, þeirri deild þar sem smitið greindist, börnin sjálf og starfsfólk að fara í sóttkví. 

Þetta segir í tölvupósti leikskólastjóra Sólbrekku til foreldra. 

„Kæru foreldrar. Nú hefur það gerst sem við höfum óttast lengi. Í kvöld hafði smitrakningarteymi almannavarna samband vegna þess að starfsmaður á Bakka í Sólbrekku hefur smitast af Covid-19,“ segir í póstinum, sem sendur var í gær. 

Þar segir að börn, foreldrar og starfsfólk annarra deilda þurfi ekki í sóttkví samkvæmt leiðbeiningum smitrakningateymis. Það eru börn á Ási, Eiði, Grund og Bjargi. Hins vegar verður leikskólanum lokað á meðan sóttkví stendur, þar sem starfsfólk getur ekki mætt til vinnu.  

Baldur Pálsson, fræðslustjóri Seltjarnarnesbæjar, segir við mbl.is að unnið sé með smitrakningateymi við að ná utan um smitið og koma í veg fyrir að það dragi dilk á eftir sér.

„Á leikskólanum í heild eru 220 börn í heildina en þetta smit varðar bara eina starfstöð hjá okkur. Þetta eru tæplega 100 börn og á þriðja tug starfsmanna. Það var einn starfsmaður sem greindist og því þurfa börn á þeirri deild að fara í sóttkví, en við þurfum að loka þeirri starfstöð. Vonandi greinast bara allir neikvæðir þar og við getum opnað aftur á mánudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert