„Computer says no“ – Unnið að lagfæringu

Tilkynnt verður þegar kerfið kemst í lag.
Tilkynnt verður þegar kerfið kemst í lag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Unnið er að því að lagfæra tölvukerfið sem heldur utan um bólusetningarvottorð, eftir að í ljós kom að þau falla úr gildi í þær tvær vikur sem líða frá örvunarskammti. 

Greint var frá þeim ljóði á kerfinu á mbl.is í morgun.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður að því á upplýsingafundi almannavarna hvort þetta væri ekki óheppilegt og jafnvel letjandi fyrir fólk, sem er á leið til útlanda og vill hafa gilt vottorð með í för.

„Þetta er svona vandamál sem kemur upp þar sem segir „Computer says no“,“ sagði Þórólfur en benti svo á að málið stæði til bóta.

Ekki með örvunarskömmtunum sýnilegum

Tilkynnt verður þegar þetta er komið í lag, svo þeir sem á þurfi á að halda geti sótt sér nýtt skírteini, að því er segir á vef embættis landlæknis.

Segir þar enn fremur að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sé að hefja áætlanagerð vegna skráningar örvunarskammta í evrópsk vottorð með QR-kóða og þangað til niðurstaða er komin um það verði íslensku vottorðin ekki með örvunarskömmtunum sýnilegum.

Örvunarskammtar muni þó koma fram í bólusetningayfirliti Heilsuveru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert