Ekki í forgangi að AstraZeneca-þegar fái Pfizer

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er ekki forgangsverkefni eins og staðan er núna að gefa þeim sem hafa verið bólusettir með AstraZeneca örvunarskammt með Pfizer.

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna.

Hann var spurður að þessu í ljósi þess að í viðtali Björns Inga Hrafnssonar hjá Viljanum við Þórólf og Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, kom fram að bóluefni AstraZeneca er næstsíst á eftir Janssen.

Þórólfur sagði að skoða þurfi tölurnar sem eru til staðar með ákveðnum fyrirvara. Skoða þurfi þær með tilliti til undirliggjandi áhættu, hverjir eru bólusettir, aldurssamsetningu o.s.frv. „Þetta eru hráar tölur og hráar niðurstöður sem þarf að túlka með varúð,“ sagði hann og bætti við að flestir sem eru að smitast núna eru ungt fólk sem er mest á ferðinni og mest útsett. Það hafi fengið bóluefni Janssen.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er hann var bólusettur með AstraZeneca.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er hann var bólusettur með AstraZeneca. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur sagði verndina samt virðast vera slökust hjá Janssen og því fái þeir sem fengu það bóluefni örvunarskammt.

Hann sagði AstraZeneca, samkvæmt þeim tölum sem eru fyrir hendi, töluvert skárra en Janssen en ekki á svipuðu róli og hin bóluefnin.

„Mér finnst þessar tölur hjá okkur ekki gefa tilefni til þess að fara endilega að rjúka í að gefa þeim sem hafa fengið AstraZeneca örvunarskammt með Pfizer. Það getur vel verið að það komi til þess, en það er ekki forgangsverkefni eins og staðan er núna, jafnvel þó að ég sé sjálfur bólusettur með AstraZeneca,“ sagði Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert