Ekki í veldisvexti en hertar aðgerðir mögulegar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnalæknir segir að kórónuveirufaraldurinn hér á landi sé ekki lengur í veldisvexti, nú sé hann kominn í línulegan vöxt. Þó er ekki útlit fyrir að hann sé á niðurleið. Ef Landspítali lætur í ljós áhyggjur af neyðarástandi þar segir sóttvarnalæknir óhjákvæmilegt að hann leggi til hertar sóttvarnaaðgerðir.

Kórónuveirubylgjan sem nú er yfirstandandi hefur verið í miklum vexti síðastliðinn mánuð. Um 120 hafa greinst smitaðir á degi hverjum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að þær aðgerðir sem gripið hefði verið til, t.d. hertar aðgerðir á landamærum og 200 manna samkomubann, hafi haft jákvæð áhrif.

„Ég held að þær hafi haft þau áhrif að faraldurinn er ekki í veldisvexti heldur í línulegum vexti en ekki sjást merki þess að hann sé á niðurleið,“ sagði Þórólfur. „Samhliða þessum línulega vexti hefur inlögnum á Landspítala fjölgað hratt.“

Aðgerðirnar virðast ekki nægja

64 hafa þurft á innlögn á sjúkrahús að halda vegna Covid-19 frá 1. júlí sl., þar af níu á gjörgæslu og fimm þeirra hafa þurft á aðstoð öndunarvélar að halda. Þórólfur segir að aðgerðirnar sem gripið hefur verið til virðist ekki nægja fyllilega.

„Ef spítalinn metur sem svo að neyð sé yfirvofandi sé ég ekki annað í stöðunni en að leggja til hertar aðgerðir,“ sagði Þórólfur.

„Hvenær að því kemur er ekki ljóst á þessari stundu en það gæti hugsanlega gerst fyrr en síðar og þess vegna erum við í nánu samtali við Landspítala.“

Kynbótasýning, skemmtanalífið og hópsýking

Í máli hans kom fram að smitin sem greinst hafa undanfarið megi í flestum tilvikum rekja til smita sem upphaflega voru kennd við skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur, kynbótasýningar hér á landi, hópaferða Íslendinga erlendis og hópsýkingar á meðal erlendra ferðamanna sem var „nokkuð umfangsmikil“.

Þórólfur sagði eðlilegt að spyrja hvort útbreidd bólusetning hér á landi hafi ekki skilað meiru eða hvort yfirvöld séu að gera nóg til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.

„Vissulega hafa bólusetningar komið í veg fyrir smit og sérstaklega komið í veg fyrir alvarleg veikindi. Þetta sést glöggt þegar hlutfall veikinda hjá bólusettum er borið saman við hlutfall veikinda hjá óbólusettum.

Þá kemur í ljós að greining smita er um þrisvar sinnum líklegri hjá óbólusettum en bólusettum einstaklingum. Líkur á innlögnum á sjúkrahús eru um fjórum sinnum hærri hjá óbólusettum heldur en bólusettum, líkur á gjörgæsluinnlögnum eru um fimm sinnum algengari hjá óbólusettum en bólusettum,“ sagði Þórólfur.  

„Það á að vera hvatning til allra til að mæta í bólusetningu hafi þeir ekki mætt áður.“

Þórólfur gerir ráð fyrir því að Covid-19 verði til staðar í samfélaginu næstu mánuði, ef ekki næstu ár. Því er hann farinn að huga að framtíðarráðstöfunum og hefur skilað hugmyndum um þær til heilbrigðisráðherra.

„Staðan í dag er þannig ekkert sérstaklega skemmtileg og mér er þannig ljóst að allir eru búnir að fá meira en nóg af aðgerðum gegn Covid-19. Það verður hins vegar ekki umflúið að grípa til aðgerða ef þess gerist þörf, til að vernda heilbrigðiskerfið og aðra nauðsynlega innviði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert