Fundir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um Ásmundarsalarmálið og Lindarhvol, sem halda átti í dag, frestast um viku. Þetta staðfestir Jón Þór Ólafsson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.
Að sögn Jóns Þórs frestast fundurinn vegna sumarleyfa á nefndasviði Alþingis en fundurinn á að fara fram sem opin fjarfundur. Fundurinn fer því fram 19. ágúst.
Á fundinum á að ræða annars vegar málefni Lindarhvols ásamt settum ríkisendurskoðanda, Sigurði Þórðarsyni, og hins vegar á að rannsaka hvort nefnd um eftirlit með lögreglu hafi farið fram úr heimildum við rannsókn sína á störfum lögreglumanna sem komu í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld og dagbókarfærslu lögreglunnar í kjölfarið.