Gildistími vottorðs breytist við örvunarskammt

Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við örvunarbólusetningu fyrir Janssen-þega breytist gildistími bólusetningarvottorðs. Þ.e. þeir sem hafa nú þegar fengið bólusetningarvottorð vegna bólusetningar með Janssen munu ekki hafa gilt vottorð í tvær vikur eftir örvunarskammt. Vottorðið tekur gildi tveimur vikum eftir þann skammt. Þetta kemur fram á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í næstu viku verður örvunarskammtur af bóluefni Pfizer í boði fyrir þau sem hafa fengið Janssen-bólusetningu fyrir a.m.k. 28 dögum. Þau sem eru með mótefni eftir Covid-19-sýkingu og hafa fengið Janssen-örvunarskammt þurfa ekki að mæta í annan Pfizer-örvunarskammt.

Óbólusettir velkomnir

Bólusetningar í Laugardalshöll hefjast að nýju í næstu viku. Þá verður bólusett alla virka daga vikunnar nema á föstudag, miðað við núverandi áætlun. Bólusett verður á milli klukkan 10 og 15 og er fólki sem er óbólusett velkomið að mæta í bólusetningu á meðan opið er. 

Í næstu viku fer einnig fram endurbólusetning fólks sem fékk fyrri skammt af bóluefni Pfizer gegn Covid-19 í síðasta mánuði. 

„Það verða send út boð fyrir þessa hópa, fólk er vinsamlegast beðið um að mæta á þeim tíma sem boðið segir til um,“ segir á vef heilsugæslunnar um þau sem á að endurbólusetja eða veita örvunarskammt í næstu viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert