Hægt að sjá fyrri sprautur á ógildu vottorði

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það kerfi sem notað er um skráningu og gildistöku bólusetningarvottorða er þannig forritað að vottorð taka alltaf gildi tveimur vikum eftir síðustu bólusetningu. Þess vegna fellur vottorð úr gildi í tvær vikur hjá þeim sem þiggja örvunarskammt, t.a.m. Janssen-þegum. 

Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. 

Fyrr í morgun var greint frá því að bólusetningarvottorð féllu úr gildi í tvær vikur hjá örvunarskammtsþegum. Kom það fram á vef Heilsugæslunnar.

Kerfið forritað svona

Hún segir að svona hafi kerfið verið forritað og því sé þetta svona. Hins vegar megi alltaf sjá á bólusetningarvottorðum hvaða bólusetningar hafa verið gerðar, þannig þótt vottorðið sé ekki gilt í þeim skilningi breytir það engu um bólusetningarstöðu þeirra sem eru bólusettir. 

„Um leið og þú sprautar aftur þá uppfærist kerfið upp á nýtt,“ segir Ragnheiður.

Spurð hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að þetta sé letjandi fyrir þá sem ætla að sýna samfélagslega ábyrgð og þiggja örvunarskammt segir Ragnheiður:

„Sko, á vottorðinu sést alltaf hvaða bólusetningar er búið að gera, til dæmis ef fólk er búið að fá eina Janssen og fær síðan Pfizer þá sést það alltaf á vottorðinu. Hins vegar vitum við að margir fara til útlanda og þess vegna vildum við vekja athygli á þessu, bara þannig fólk geti haft varann á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert