Þóra Birna Ingvarsdóttir
Sáttafundi þeirra sem koma að Húsafellsmálinu var að ljúka. Útlit er fyrir að samkomulag hafi náðst þrátt fyrir erfiðan fund, að sögn Helga Kristins Eiríkssonar sem hefur verið Páli Guðmundssyni listamanni innan handar í ferlinu.
Nú er verið að skrifa upp samning sem verður svo yfirfarinn af lögfræðingum Sæmundar Ásgeirssonar, Páls og Borgarbyggðar.
Ef ekki kemur upp ágreiningur við nánari skoðun er útlit fyrir að í stað þess að seinna þakið verði rifið af legsteinahúsi Páls klukkan tvö í dag, verði þakið sem búið var að taka af, híft aftur á. Þá munu sveitarstjóri og byggingarfulltrúi mæta og skrifa undir samninginn á staðnum.
Helgi bendir á að samningur sé ekki samningur fyrr en hann sé undirritaður og því megi ekki fagna of snemma. Hann telur þó einlægan vilja vera fyrir hendi að enda þetta þannig að allir aðilar gengi sáttir frá borði.
Helgi segir að margar þær kröfur sem Sæmundur hafði gert Páli og Páli þóttu yfirgengilegar, séu farnar úr samningnum.