Aðalfundi Pírata hefur verið frestað um viku. Fundurinn átti að fara fram um komandi helgi, 14. til 15. ágúst, en var frestað um viku og fer því fram helgina á eftir dagana 21. og 22. ágúst. Stór hluti starfsmanna á fundarstað var sendur í sóttkví nýlega vegna smits innanhúss.
Fundurinn fer fram í sveitasetrinu Vogi á Fellströnd en verður einnig í beinu streymi í gegnum fjarfundarbúnað. Píratar hafa sett sér verklagsreglur vegna faraldursins og í samræmi við þær verður heildarfjöldi takmarkaður við 100 manns.
„Fyrirtæki og stofnanir um allt land hafa þurft að skella tímabundið í lás þegar upp hafa komið smit en halda að því loknu ótrauð áfram. Að lifa með faraldrinum þýðir ekki að öll starfsemi skuli stöðvuð endanlega heldur vera nógu sveigjanleg til að bregðast við uppákomum sem þessum,“ segir í tilkynningunni um frestunina.