Ung kona, sem á bókað flug til Spánar eftir um tíu daga, segist mjög reið vegna frétta um að bólusetningarvottorð örvunarskammtsþega sé ekki gilt í tvær vikur eftir að örvunarskammturinn er gefinn.
Hún segist því ekki ætla að þiggja örvunarskammt fyrr en hún kemur aftur til Íslands, en hún hafði í hyggju að gera það áður en hún færi til að vera betur varin við kórónuveirusmiti. Það taldi hún samfélagslega ábyrgt.
„Maður er orðinn alveg svakalega pirraður á þessu,“ segir konan við mbl.is, en hún vill ekki koma fram undir nafni.
„Af því líka að ég verð að fara til Spánar, þetta er ekki eitthvað skrepp, ég verð að komast þangað.“
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði við mbl.is fyrr í morgun að á bólusetningarvottorðum kæmi skýrt fram hvaða bólusetningu viðkomandi væri búinn að þiggja, óháð því hvort vottorðið sé gilt í eiginlegum skilningi eða ekki.
Það segir konan, sem ræddi við mbl.is, að sé hreinlega ekki nóg, þar sem hún vilji ekki taka sénsinn að komast hvorki lönd né strönd vegna ógilds bólusetningarvottorðs.
„Ég fer í gegnum Þýskaland og Þjóðverjar eru náttúrulega mjög nákvæmir með allt svona, þú veist. Svo segja þau bara að kerfið sé forritað svona og þess vegna sé þetta svona. Það er árið 2021. Þetta á ekki að þurfa að vera svona.“
Konan segir að hún muni ekki þiggja örvunarskammt fyrr en eftir að hún kemur heim frá Spáni. Hún segir ótrúlegt að stjórnvöld ætli sér að letja þá sem eru minnst varðir til þess að þiggja örvunarskammt.
„Ég verð bara að gera þetta þegar ég kem heim, en þetta er alveg fáránlegt. Af hverju þarf þetta eiginlega að vera svona? Velkomin til ársins 2021.“