Sérstök röð fyrir Íslendinga

„Það er ekkert nýtt að flugstjórar fari með yfirstjórn í …
„Það er ekkert nýtt að flugstjórar fari með yfirstjórn í flugvél. En ég var ekki að tala um slík völd,“ segir Sigríður. Ljósmynd/Samsett

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gefur lítið fyrir svör Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við gagnrýni hennar á að það skorti lagastoð fyrir reglugerð hans um skyldu flugrekenda til að óska eftir bólusetningarvottorði og vottorði um neikvætt PCR-próf.

Upphaflega benti hún á að í lok maí hafi verið veitt heimild til þess að leggja skyldu á flugrekendur til að kanna hvort farþegar hafi tilskilið vottorð. Þar hafi þó skyldan verið takmörkuð við eitt vottorð, en ekki tvö líkt og segir í reglugerð Sigurðar Inga.

Hann svaraði gagnrýninni og sagði valdið vera hjá flugstjórum. Sigríður segir það einfaldlega útúrsnúning.

„Það er ekkert nýtt að flugstjórar fari með yfirstjórn í flugvél. En ég var ekki að tala um slík völd, heldur þessa skyldu flugfélaga til að kalla eftir gögnum,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is.

Hún bendir á frétt Vísis frá því fyrr í dag þar sem Sigurður Ingi sagði flugfélögin ekki skuldbundin til þess að óska eftir að menn sýni fram á neikvætt PCR-próf. „Hvað er maðurinn að segja? Hann er ráðherra sem setur reglugerð sem segir að félög skuli gera þetta, síðan segir hann í fréttinni í dag að þau séu ekki skuldbundin til þess að gera þetta.“

Farþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær.
Farþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta

Sigríður heldur áfram og segir að ekki sé hægt að bjóða fólki upp á það að eyða miklu fé í vottorð sem það þarf ekki.

„Það eru auðvitað engin flugfélög að vinna eftir þessu rugli. Það er enginn á neinni flugstöð erlendis að gera þetta. En þá eiga menn ekki að vera með þetta leikrit.

Fólk er að eyða tugum þúsunda í þessi próf erlendis. Og það er ekki bara kostnaðurinn að fara í þessi próf heldur er þetta líka ofboðslega íþyngjandi fyrir íslenska ríkisborgara að fá falskt jákvætt próf og vera fastur í útlöndum í tvær vikur, og kannski öll fjölskyldan.

Mér finnst bara ekki hægt að bjóða íslenskum ríkisborgurum upp á þessa þvælu. Ekki bara reglugerð sem ráðherra setur, sem er náttúrulega án lagaheimildar, heldur líka hugmyndafræðina.“

Íslendingana í gegn

Varðandi stöðuna í Leifsstöð segir Sigríður að það sé tilgangslaust að hafa Íslendinga fasta í röð þegar svo hátt hlutfall þjóðarinnar er bólusett. 

„Fólk sem er með íslenskt vegabréf er bara bólusett. Það þarf ekki að velta því neitt meira fyrir sér. Allt þetta kraðak í Keflavík er út af engu. Þeir ættu að byrja á því að skipta upp, allir Íslendingar fara í gegnum þetta hlið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert