Þungt hljóð í nemum

Skólastarf í flestum framhaldsskólum hefst í næstu viku og ljóst að sú ákvörðun stjórnvalda að framlengja gildandi sóttvarnaaðgerðir um tvær vikur mun hafa áhrif á skólastarf. Nemendur og starfsfólk þurfa því að lúta tvö hundruð manna samkomutakmörkunum, eins metra nándarreglu og grímuskyldu. Hljóðið í nemendum er þungt en margir hverjir eru nú á leið á sitt þriðja og síðasta framhaldsskólaár og finna fyrir gríðarlegum missi, þar sem fæstir hafa upplifað eitt óskert skólaár í framhaldsskólagöngunni.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

„Við erum með fullskipulagt skóladagatal fyrir félagslífið út skólaárið og búin að skipuleggja eins og þetta yrði venjulegt skólaár en síðan kemur annað í ljós núna á síðustu vikum,“ segir Kári Freyr Kristinsson, forseti nemendafélags Verzlunarskólans.

Guðrún Inga Sívertsen, skólastjóri Verzlunarskólans, tekur undir áhyggjur Kára Freys. Hún segir að skólastjórnendur geti ekki leyft stórar samkomur.

„Við erum með um 1.100 nemendur og því gefur augaleið að félagsstarfið verður öðruvísi, að minnsta kosti til að byrja með,“ segir Guðrún. „Við verðum með 100% staðnám en fylgjum öllum þeim fyrirmælum sem við fáum frá stjórnvöldum. Þá auðveldar það fyrir okkur að við erum með bekkjarkerfi til að koma í veg fyrir miklar hópamyndanir.“

Guðrún segist þó hafa áhyggjur af því að stór hluti skólans verði kominn í sóttkví eftir tvær til þrjár vikur. „Þetta gekk ágætlega á síðasta skólaári en nú virðist veiran vera hjá svo mörgum, og sérstaklega hjá þeim sem eru ekki í sóttkví og eru með lítil einkenni. Hún dreifist hratt, auðvitað hefur maður áhyggjur af því.“

Skólastarf hefst 20. ágúst og segir Guðrún að starfsfólk hlakki til að taka á móti nemendum. „Það verður gaman að hefja skólastarfið, við vonum bara að það verði með sem eðlilegustum hætti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert