Endurskoða reglur um sóttkví

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segist byggja tillögur sínar á áhættumati spítalans.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segist byggja tillögur sínar á áhættumati spítalans. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að nú sé unnið að því að breyta vinnureglum og reglum um sóttkví. Ekki er vitað hvenær þeirri vinnu lýkur en hann segir von á því „núna á næstunni.“ Ekkert lát er á línulegum vexti faraldursins. 

Breytingarnar tækju mið af bólusetningum en Þórólfur bendir á að þó ekki megi slaka á kröfum um sóttvarnir þá sé líklega ráðrúm til að slaka á sóttkvíarreglum bólusettra einstaklinga.

„Þungamiðjan í því sem við erum að gera er smitrakning, sóttkví og einangrun og er það nauðsynlegt til að hefta útbreiðslu og halda kúrfunni niðri.“

Ekkert lát á línulegum vexti

Varðandi tölur dagsins segir Þórólfur að þær séu breytilegar milli daga en þó alltaf á svipuðu róli. „Við erum bara áfram í þessum línulega vexti, ekkert lát á því.“

Sex lögðust inn á spítala til viðbótar frá því í gær en á móti útskrifuðust tveir. Fimm eru í öndunarvél. Álagið er þó sífellt að aukast á Landspítalanum en Þórólfur bendir á að það sé í samræmi við þennan línulega vöxt, enda komi birtingarmynd hans seinna fram á spítalanum. 

Við erum ekki að ná þeim tökum á faraldrinum sem við viljum, að mati Þórólfs. „Við viljum fá kúrfuna niður. Þær aðgerðir sem við erum með í gangi núna halda faraldrinum í línulegum vexti, annars færi hann í veldisvöxt með enn verri afleiðingum.“

Tillögur Þórólfs byggja á áhættumati spítalans

Þórólfur segir að þetta sé spurning um hvort við séum með nógu harðar aðgerðir til þess að kúrfan muni bráðum fara að síga niður. Ef ekki, þá hvort vilji sé fyrir því að grípa til harðari aðgerða en stjórnvöld ákveði það endanlega enda þurfi að taka tillit til annarra hagsmuna í samfélaginu. 

„Mínar tillögur um hertari aðgerðir byggja á áhættumati spítalans, hvort þar ríki neyð. Það er verið að meta þetta á hverjum degi,“ segir Þórólfur.

Hann lagði fyrr í vikunni fram tillögur um langtímaaðgerðir í baráttunni við Covid-19 en hann kveðst ekki leggja í vana sinn að upplýsa um slíkar tillögur fyrr en stjórnvöld hafa fengið ráðrúm til að ræða þær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert