Hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps á Snæfellsnesi hefur þegið boð bæjarstjórnar Snæfellsbæjar um að taka upp viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Tveir fámennir grunnskólar eru á sunnanverðu Snæfellsnesi og líklegt að óvissa um framtíð þeirra eigi þátt í því að viðræður eru teknar upp.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Við erum með stóran hluta okkar sveitarfélags í dreifbýlinu á sunnanverðu nesinu. Það er leið til að styrkja okkar samfélag og þeirra að sameina sveitarfélögin. Með því má horfa til þess að halda úti öflugu skólahaldi í dreifbýlinu,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar.
Í Snæfellsbæ búa 1.680 manns og um 120 í Eyja- og Miklaholtshreppi. Síðarnefndi hreppurinn liggur að Staðarsveit sem tilheyrir Snæfellsbæ og Kolbeinsstaðahreppi sem er hluti af Borgarbyggð. Hinum megin við fjallið eru Helgafellssveit og Stykkishólmur sem eru í viðræðum um sameiningu við Dalabyggð.