Miðað við fyrri reynslu af veirusmitum meðal strætóbílstjóra verður að teljast ólíklegt að farþegar hafi smitast. Þetta segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, við mbl.is í ljósi þess að tvö smit komu upp meðal vagnstjóra í gær.
Hann segir að smitrakningateymið hafi viljað meina síðast þegar smit kom upp meðal vagnstjóra, að litlar líkur væru á að smit bærist til farþega. Það væri vegna þess að samskipti vagnstjóra og farþega væru stutt og loftræsting góð. Guðmundur telur að langflestir starfsmenn séu bólusettir.
„Það er samt fyrst og fremst bara leiðinlegt að þurfa að loka einhverjum leiðum í dag, það er alls ekki gaman,“ segir Guðmundur við mbl.is, en aðeins 4 af 5 vögnum á leið 19 um Hafnarfjörð munu aka fyrir hádegi í dag og leið 31 um Grafarvog verður lokað í allan dag vegna smita.
Engin röskun verður þó að leiðarkerfi Strætó um helgina, að sögn Guðmundar, en síðan verður staðan tekin á mánudag og mun þá vonandi vera ljósara hvort smitin hafi verið útbreidd eður ei.
Það segir Guðmundur að sé vegna manneklu, enda margir bílstjórar í sumarfríi. Tveir vagnstjórar smituðust, eins og fyrr segir, en fimm þurftu í sóttkví.
Guðmundur segir þá að mesta hættan sé að smit berist í aðra bílsstjóra, t.a.m. eftir samskipti þeirra á kaffistofum eða slíkt.
„Vonandi kemur þetta að of mikilli sök, okkur finnst þetta alveg ótrúlega leiðinlegt,“ segir hann.