„Ekki viðeigandi að hækka gjöldin svona bratt“

Runólfur Ólafsson, formaður FÍB.
Runólfur Ólafsson, formaður FÍB. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum undrandi á þessu og teljum það ekki viðeigandi að hækka gjöldin svona bratt,“ segir Run­ólf­ur Ólafs­son, formaður Fé­lags ís­lenskra bif­reiðaeig­enda, í samtali við mbl.is. 

Borg­ar­ráð samþykkti breyt­ingu á gjaldi bíla­stæðakorta í gær. Bíla­stæðakort í Reykja­vík­ur­borg hækka úr 8.000 krón­um í 30.000 krón­ur á ári en 15.000 krón­ur ár­lega fyr­ir þá sem aka á hrein­um raf­magns- og vetn­is­bíl­um.

Þurfi að tryggja aðra samgöngumáta

Runólfur segir að fyrst það eigi að gangast í þessar breytingar þurfi að tryggja að aðrir samgöngumátar séu fyrir hendi „ef það á að setja stein í götu þeirra sem nota einkabílinn til að fara með börnin á milli hverfa í leikskóla til dæmis. Hækkunin er ansi brött og eykur mjög útgjöld við heimilisreksturinn“.

Hann segir að Reykjavíkurborg hafi ekki leitað umsagnar hjá félaginu varðandi málið.

„Þurfi ekki svona þvingunarúrræði til að breyta hegðun fólks“

Runólfur nefnir að á sama tíma sé verið að þrengja að bílastaðamálum í borginni. „Með þéttingu byggðar hafa komið inn ný híbýli sem ekki einu sinni hafa aðgang að bílastæði, eða mjög takmarkaðan. Það þýðir að það er meira álág á þessi bílastæði sem fyrir voru. Það er alltaf verið að þrengja meira og meira að fólki. Á sama tíma er verið að auka kostnaðinn þegar þjónustan verður lakari.“

Telur þú að fólk eigi eftir að fjárfesta frekar í rafmagns- og vetnisbílum vegna gjaldsins?

„Ég sé það ekki í sjálfu sér. Það eru þegar til staðar ívilnanir til fólks og sú þróun á sér stað. Ég held það þurfi ekki svona þvingunarúrræði til að breyta hegðun fólks. Við sjáum þetta ekki sem eðlilegt ferli í þeim anda,“ segir Runólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert