Þegar vikurnám við Hafursey á Mýrdalssandi verður komið í fullan gang verða flutt út um milljón tonn af Kötluvikri á ári. 30 stórir vörubílar verða í stöðugum flutningum til Þorlákshafnar og dugar magnið í 115 til 250 skipsfarma til Evrópu, eftir því hversu stórum flutningaskipum verður hægt að sigla til hafnar hér.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þýska fyrirtækið STEAG Power Minerals keypti jörðina Hjörleifshöfða á Mýrdalssandi í þeim tilgangi að hefja þar vikurnám. Mat á umhverfisáhrifum stendur yfir. Vikurinn verður notaður til íblöndunar við steypuframleiðslu og leysir af hólmi efni sem losa mun meiri mengun út í andrúmsloftið. Rannsóknir sýna að gæði Kötluvikurs eru allt önnur og betri en í öllum þeim námum sem STEAG hefur rannsakað hér á landi og víðar í Evrópu.
Færiböndin sem notuð verða við námuna verða um 1.500 metrar að lengd og geta afkastað 150-200 tonnum á klukkustund. 135 störf verða til í Mýrdalshreppi og Þorlákshöfn og sérstaklega við flutningana.
Náman er stór og þótt flutt verði út milljón tonn á ári mun náman duga í meira en hundrað ár.