Gylfi laus til 16. október hið minnsta

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gylfi Þór Sigurðsson knattspyrnumaður verður laus gegn tryggingu til 16. október næstkomandi.

Gylfi var handtekinn fyrir tæpum mánuði í Manchester á Englandi, vegna gruns um brot gegn barni. Hann var látinn laus gegn tryggingu skömmu síðar.

Þetta kemur fram í frétt Sky Sports um málið. Þar segir að lögreglan í Manchester hafi tilkynnt þetta.

Gylfi er því laus úr haldi þar til 16. október hið minnsta, en rannsókn málsins er enn í gangi.

Saksóknari minnir fólk á að gæta orða sinna

Í kjölfar máls Gylfa hratt ríkissaksóknari Englands, Michael Ellis, af stað herferð gegn því að fólk setti efni á samfélagsmiðla sína þar sem það tjáir sig um dómsmál og lögreglurannsóknir sem enn eru í gangi.

Notaði hann til þess myllumerkið #ThinkBeforeYouPost, eða „Hugsaðu áður en þú tjáir þig“ og minnti hann á þau áhrif sem ógætileg umræða um dómsmál gæti haft á niðurstöðu þeirra.

Frá þessu sagði breski miðilinn Telegraph þegar mál Gylfa kom upp, án þess þó að hann væri nefndur sérstaklega í því sambandi. Einungis sagði í frétt Telegraph að herferð ríkissaksóknarans tengdist þeim leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar sem grunaður væri um brot gegn barni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert