Hringinn með fartölvu í fanginu

Karl Thoroddsen segir að tómarúm hafi myndast þegar minna var …
Karl Thoroddsen segir að tómarúm hafi myndast þegar minna var að gera í vinnunni vegna faraldursins. Hann notaði því tímann til að þróa nýtt ferðasmáforrit sem slegið hefur í gegn. mbl.is/Ásdís

Karl Thoroddsen er sjálfstætt starfandi tölvufræðingur og forritari, en hann hefur unnið mikið fyrir Landspítalann síðasta áratug.

„Í upphafi faraldursins var ég ásamt öðrum alveg á fullu að vinna að forriti sem tengdist Covid með beinum hætti, en eftir að þeirri vinnu lauk myndaðist tómarúm. Þá skellti ég mér á fullu í að þróa ferðaappið Kringum og dró alla fjölskylduna með,“ segir Karl og segir að hann hefði aldrei ráðist í gerð appsins ef ekki hefði komið heimsfaraldur.

Brjáluð vinna en gefandi

„Þegar Covid byrjaði var strax ljóst að það þyrfti hugbúnaðarkerfi fyrir spítalann til að halda utan um alla Covid-sjúklingana,“ segir Karl sem var í teymi Landspítalans sem þróaði kerfið sem heldur utan um smitaða og alvarleika veikinda þeirra.

„Þessi vinna fór fram vorið 2020 og það var unnið langt fram á nætur í nokkrar vikur. Alveg brjáluð vinna en mjög gefandi. Síðan eftir það róaðist allt og ég var meira heima. Þá kom upp í hugann gömul hugmynd sem hafði lengi blundað í mér, að búa til ferðaforrit. Ég byrjaði að skrá í gagnagrunn og sækja gögn fyrir appið. Við konan mín keyrðum þá mikið út á land og á meðan hún keyrði, sat ég með fartölvuna í fanginu og skráði niður allt sem mér fannst merkilegt við staðina. Og þannig fórum við hringinn í kringum landið,“ segir Karl og segir að upphaflega hugmyndin hafi verið að sú að fylla rútu af fræðingum; jarðfræðingum, sagnfræðingum og fleira fólki, og taka svo allt upp sem þau segðu. En það fór svo að Karl gerði allt sjálfur.

Vinsælasta app sumarsins

Karl segir appið stútfullt af fróðleik og upplýsingum.

„Vegahandbókin er með þrjú þúsund staði skráða og er búin að vera fróðleiksnáma fyrir Íslendinga síðustu áratugi, en oft er bara skrifuð ein lína um hvern stað. Kringum er með tólf þúsund staðsetningar og mun ítarlegri upplýsingar. Við gerð appsins talaði ég við marga til að afla upplýsinga, til dæmis Ferðamálastofu þar sem ég fékk mikið af gögnum sem ég gat flutt beint inn í appið. Frá Landmælingum fékk ég örnefni. Í Kringum eru líka hátt í eitt þúsund þjóðsögur, lýsingar á atburðum og upplýsingar um þekkt fólk sem bjó á stöðunum eða er fætt þar. Síðan er fróðleikur um dýralíf, jarðfræði og allt sem er áhugavert í kringum þig,“ segir Karl.   

„Ég held að þetta hafi verið vinsælasta app sumarsins, ofar en bæði Ferðagjöfin og Rakningarappið.“

Bæði heppinn og þakklátur

„Ég geri allt sjálfur og ástæðan fyrir því að þetta var hægt var Covid og ég hafði meiri tíma aflögu. Ef Covid hefði ekki verið hefði ég aldrei gert þetta.“

Karl segir að margt jákvætt hafi í raun sprottið upp vegna faraldursins.

„Ég hef verið afskaplega heppinn að hafa getað tekið beinan þátt í að hjálpa til í faraldrinum. Það er góð tilfinning að hafa verið í öflugu teymi Landspítalans sem vann við halda utan um Covid-sjúklinga. Svo hafði ég þennan auka tíma til að búa til þetta app. Ég fæ marga pósta á dag þar sem fólk er annaðhvort að hrósa appinu eða að koma með leiðréttingar og hugmyndir. Fólk segir appið hafa aukið virði ferðar sinnar. Ég er bæði heppinn og þakklátur.“

Hvaða lærdóm hefurðu dregið af þessu kórónuveirutímabili?

„Ef fólk er með drauma þá á það bara að byrja á þeim, líka þótt það sé ekki Covid. Það eru alltaf einn eða tveir aukaklukkutímar á degi hverjum sem fólk á fyrir sig sjálft. Það er hægt að byrja smátt, taka lítil skref og eftir mánuð hefur fólk áorkað miklu og er jafnvel komið hálfa leið. Munurinn í Covid er sá að þá voru enn fleiri tímar aflögu en oft áður.“

Ítarlegra viðtal við Karl er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert