Kristján Oddsson, svæðisstjóri Heilsugæslunnar Hamraborgar, hefur sagt sig frá stöðu sinni hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana.
Kristján hefur stýrt stöðinni frá miðju ári 2020. Í tilkynningu á vef heilsugæslunnar segir að Kristján muni nú einbeita sér að starfi sínu við heilsugæsluna í Hamraborg.
„HH þakkar Kristjáni mikið og gott starf við þetta verkefni,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að brýnasta verkefni stöðvarinnar næstu mánuði er að ljúka gerð nýs tölvukerfis sem heldur utan um skimanirnar.
Skipulag skimana fyrir leghálskrabbameini hefur sætt harðri gagnrýni síðan ákveðið var að færa starfsemina frá Krabbameinsfélaginu yfir til almenna heilbrigðiskerfisins.
Ágúst Ingi Ágústsson, kvensjúkdómalæknir, hefur verið ráðinn yfirlæknir og nýr forstöðumaður Samhæfingarstöðvarinnar næsta hálfa árið.