Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir framlínustyrki til starfsmanna slökkviliðsins, líkt og heilbrigðisstarfsfólk og annað framlínufólk hefur fengið greitt frá ríkinu, vera til skoðunar og að niðurstaða um slíka styrki sé væntanleg á næstu dögum eða vikum.
Í svörum slökkviliðsins sem birt var á fundi borgarráðs sl. fimmtudag varðandi viðbrögð vegna Covid-19, segir að, að beiðni formanns stjórnar SHS hafi slökkviliðsstjóri óskað formlega eftir því við Sjúkratryggingar Íslands að álagsgreiðslur, sem greiddar eru til starfsfólks sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sem starfa undir miklu álagi vegna Covid-19, myndu einnig ná til starfsfólks SHS sem sinnir sjúkraflutningum, þar sem það hefur verið undir umtalsverðu álagi. Þessu erindi hafi ekki verið svarað.
„Þetta er náttúrulega mjög víða í skoðun og fólk er búið að leggja hrikalega mikið á sig við erfiðar aðstæður og klárlega erum við hjá Slökkviliðinu búin að vera hluti af þessari fremstu línu,“ segir Jón Viðar. „Það er búið að vera svakalegt álag undanfarnar vikur og í langan tíma. Fyrst í þessum faraldri í fyrra að þá var gírinn svona að þetta væri átaksverkefni, einhverjir örfáir mánuðir og að síðan myndi það klárast. Svo kom smá pása og síðan fór þetta aftur af stað og núna er þetta orðið þannig að menn eru farnir að sjá fyrir sér, bæði við, stjórnvöld og aðrir, að þetta er ekki átaksverkefni lengur.“