Þung staða á gjörgæslu

Í athugasemdum Landspítala segir að þung staða sé nú á …
Í athugasemdum Landspítala segir að þung staða sé nú á gjörgæsludeildum Landspítala.

Sjúklingum á Landspítala hefur fækkað um tvo frá því í gær en sjúklingar eru nú 30. Þá hefur einnig fækkað um einn á gjörgæslu en þar eru sjö. 

Í athugasemdum Landspítala segir að þung staða sé nú á gjörgæsludeildum Landspítala, bæði vegna fjölda Covid-19-veikra og annarra sem þurfa gjörgæslumeðferð.

„Mikil áhersla er á að auka mönnun, einkum lækna og hjúkrunarfræðinga, og eru allir sem telja sig geta lagt hönd á plóg hvattir til að hafa samband við stjórnendur þessara eininga,“ segir í tilkynningu frá spítalanum og því sé hafið samstarf við Sjúkrahúsið á Akureyri vegna stöðunnar.

Fjórir í öndunarvél

23 sjúklingar liggja á bráðalegudeildum spítalans og eru 17 þeirra fullbólusettir en sex óbólusettir. Á gjörgæslu eru fjórir bólusettir og fjórir eru í öndunarvél. Meðalaldur innlagðra er 65 ár.

Alls hafa 73 sjúklingar lagst inn á Landspítala með Covid-19 í fjórðu bylgju faraldursins. Um þriðjungur er óbólusettur og ellefu hafa þurft að leggjast inn á gjörgæslu, sex þeirra eru fullbólusettir.

Heilbrigðisstofnanir Suðurlands og Suðurnesja taka á móti sjúklingum

Þá fjölgar virkum smitum um 14 á milli daga en nú eru 1.294 í eftirliti á Covid-göngudeild, þar af 246 börn. Þrír eru á rauðu og 57 einstaklingar flokkast gulir og þurfa nánara eftirlit.

Þá hafa Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja aukið getu sína til að taka á móti sjúklingum sem ekki þurfa nauðsynlega að vera á Landspítala og eru flutningar hafnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert