Engin tilkynning borist um lömun fyrir neðan mitti

Lyfjastofnun hefur ekki borist tilkynning þess efnis að einstaklingur hafi …
Lyfjastofnun hefur ekki borist tilkynning þess efnis að einstaklingur hafi lamast fyrir neðan mitti í kjölfar þess að hafa fengið örvunarskammt af Moderna bóluefninu. Ljósmynd/Lyfjastofnun

Lyfjastofnun hefur ekki fengið neina tilkynningu um að einstaklingur hafi lamast fyrir neðan mitti í kjölfar þess að hafa fengið örvunarskammt af bóluefni Moderna gegn Covid-19.

Þetta staðfestir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, í samtali við mbl.is.

Tilkynningin gæti átt eftir að berast.

Myndskeið er nú í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem ung kona lýsir því yfir að hafa lamast tímabundið fyrir neðan mitti í kjölfar þess að hafa fengið örvunarskammt af Moderna-bóluefninu. 

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum ber heilbrigðisstarfsfólki að tilkynna Lyfjastofnun ef grunur leikur á um alvarlegar aukaverkanir vegna bólusetninga. 

Í skriflegu svari Landspítalans kemur einnig fram að stofnunin geti ekki sagt af eða á um þetta tiltekna mál. 

Vitað um margar aukaverkanir

Rúna segist ekki meðvituð um nein tilfelli á Íslandi þar sem einstaklingur hafi lamast vegna bólusetningar Moderna. Hún tekur þó fram að ekki hafi margir á Íslandi verið bólusettir með því bóluefni.

Tiltekur hún einnig að vitað sé af 2.700 mögulegum aukaverkunum vegna bóluefnis Moderna og þar af séu 169 alvarlegar.

Örvunarskammtar á dagskrá

Í síðustu viku var starfsfólki skóla boðinn örvunarskammtur og í vikunni sem er að hefjast á að gefa þeim sem hafa verið bólusettir með Janssen fyrir a.m.k. 28 dögum örvunarskammt af Pfizer-bóluefninu. Þeir sem eru þó með mótefni eftir Covid-19-sýkingu og Janssen-bóluefni þurfa ekki Pfizer-örvunarskammt.

Er stefnt að því að búið verði að endurbólusetja Janssen-þega og gefa viðkvæmum hópum, öldruðum og ónæmisbældum þriðja skammtinn af bóluefni fyrir lok septembermánaðar.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka