Dræm þátttaka í örvunarbólusetningu í dag

Ráðist var meðal annars í örvunarbólusetningu í Laugardalshöll í dag.
Ráðist var meðal annars í örvunarbólusetningu í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Unnur Karen

Í dag var ráðist í örvunarbólusetningu hjá þeim sem fengu bóluefni Janssen í byrjun júní og var bólusett í Laugardalshöll í fyrsta skipti eftir að henni var skellt í lás í byrjun júní. Við tók sumarfrí og bólusetningar á Suðurlandsbraut, í höfuðstöðvum Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þátttaka enn sem komið er þykir þó fremur dræm en bólusett er í dag með bóluefni Moderna.

„Við hefðum viljað sjá talsvert fleiri. Ég veit ekki í hverju þetta endar en það er svona um það bil helmingur sem er að koma,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir hefði viljað sjá fleiri í höllinni í …
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir hefði viljað sjá fleiri í höllinni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bólusett verður til 15 og hvetur hún alla sem voru boðaðir til þess að mæta. Á morgun og hinn verður áfram bólusett, fyrst um sinn með bóluefni Moderna en síðan Pfizer.

Ekki liggur fyrir hvers vegna þátttakan í dag er eins dræm og raun ber vitni en svipað var upp á daginn, fyrir hádegi, þegar sami hópur var boðaður í bólusetningu Janssen í byrjun júní. Þátttakan tók síðan við sér þegar leið á daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert