Forsendur tilmæla Stefáns Hrafns óljósar

Yfirlæknar spítalans eru ósáttir með tilmæli Stefáns Hagalíns.
Yfirlæknar spítalans eru ósáttir með tilmæli Stefáns Hagalíns. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn Samtaka yfirlækna á Landspítala (SYL) segir mikilvægt að tjáningar- og skoðanafrelsi stjórnenda sé óþvingað. Þá segja samtökin aðkallandi að framkvæmdastjórn spítalans „taki af öll tvímæli um stöðu stjórnenda er kemur að opinberri umræðu um heilbrigðismál og starfsemi spítalans.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá SYL sem send var forstjóra Landspítala, framkvæmdastjórn Landspítala, Læknafélagi Íslands, Læknaráði Landspítala og Félagi sjúkrahúslækna. 

Tilefnið eru tilmæli sem stjórnendum Landspítala bárust frá Stefáni Hrafni Hagalín, deildarstjóra samskiptadeildar Landspítala, nýverið vegna miðlægrar stjórnunar samskipta við fjölmiðla. Þar sagði Stefán stjórnendum að vísa spurningum fjölmiðla á hann og hvatti stjórnendur til þess að svara ekki fjölmiðlum. Þá kallaði Stefán blaðamenn „skrattakolla“. 

Í viðtali við mbl.is um málið sagði Stefán að um hafi verið að ræða áminningu til starfs­fólks um að láta vita af þeim fyr­ir­spurn­um sem ber­ast svo Land­spít­al­inn hafi yf­ir­sýn yf­ir þær og geti séð til þess að þeim sé svarað jafnóðum.

Stjórnendur hafi staðið sig vel

„Tilmæli og forsendur þessarar ákvörðunar eru enn óljós. Kemur þetta á sama tíma og stjórnendur spítalans hafa verið áberandi í opinberri umræðu í tengslum við Covid-19 heimsfaraldur og hafa gert það með eindæmum vel. Enda oftast um að ræða forstöðumenn sérgreina með víðtæka reynslu og þekkingu á sínu fræðasviði,“ segir í yfirlýsingu SYL.

„Ein af megináherslum í stofnskrá SYL snýr að hlutverki, ábyrgð og frumkvæði stjórnenda í opinberri umræðu um heilbrigðismál. Þegar kemur að slíkri umræðu er mikilvægt að tjáningar- og skoðanafrelsi sé óþvingað. Því er aðkallandi að framkvæmdastjórn LSH taki af öll tvímæli um stöðu stjórnenda er kemur að opinberri umræðu um heilbrigðismál og starfsemi spítalans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert