Íslendingarnir í Kabúl eru sjö

Afganar bíða á alþjóðaflugvellinum í Kabúl í von um að …
Afganar bíða á alþjóðaflugvellinum í Kabúl í von um að komast úr landinu. AFP

Sjö íslenskir ríkisborgarar eru staddir í Kabúl í Afganistan. Fyrr var talið að þar væri aðeins einn.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að borgaraþjónusta ráðuneytisins og fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu séu í samskiptum við fólkið og aðstoði það eftir föngum við að komast úr landi.

Tveir frá NATO og ein fjölskylda

Annars vegar er um ræða tvo íslenska ríkisborgara sem sinna störfum fyrir stofnanir Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Afganistan. NATO vinnur nú að því að flytja burt lið sitt í landinu og eru Íslendingarnir í þeim hópi.

Hins vegar eru þarna hjón og börn þeirra sem eru með íslenskan ríkisborgararétt.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins á sem stendur í samskiptum við aðrar borgaraþjónustur á Norðurlöndum um möguleika á að fjölskyldan komist úr landi ásamt öðrum norrænum borgurum.

Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að utanríkisþjónustan sé í beinum samskiptum við alla þessa aðila, fylgist grannt með framvindunni og veiti aðstoð eins og kostur er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert