Lömun fyrir neðan mitti ekki þekkt aukaverkun

„Við sleppum eiginlega aldrei út úr þessu áhættulaust. Almennt séð …
„Við sleppum eiginlega aldrei út úr þessu áhættulaust. Almennt séð er áhættan af bólusetningum margfalt minni en áhættan af aukaverkunum Covid-sýkinga,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Sóttvarnalæknir segir að lömun fyrir neðan mitti sé ekki þekkt aukaverkun af bólusetningu gegn Covid-19. Hann segir að þó alvarlegar aukaverkanir geti komið upp vegna bólusetningar séu þær afar fátíðar og að aukaverkanir af völdum sýkingar séu mun algengari.

Ung kona greindi frá því um helgina að hún hefði lamast fyrir neðan mitti í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Um var að ræða örvunarskammt af Moderna sem konan hafði fengið. Ekkert hefur verið staðfest um orsakasamhengi bólusetningarinnar og veikinda konunnar. Lömun konunnar er væntanlega tímabundin og tók hún skýrt fram í samtali við mbl.is að hún vilji ekki að hennar saga sé notuð sem dæmisaga gegn bólusetningum. 

„Við getum ekki sagt til um það hvort bólusetningin hafi orsakað þetta. Þetta er ekki þekkt aukaverkun,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um málið. Hann sagðist ekki vita til þess að það hefði verið tilkynnt Lyfjastofnun þegar rætt var við hann í morgun.

Hann bendir á að ýmsir þekktir taugasjúkdómar geti valdið veikindum eins og konan lenti í en að ekki sé vitað til þess að slíkt tengist bólusetningu með nokkrum hætti.

„Það er örugglega bara verið að vinna að greiningu á þessu uppi á Landspítala, finna út hvaða sjúkdómur þetta er. Við þurfum að bíða nánari niðurstöðu.“

„Alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetningu geta komið upp en þær eru …
„Alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetningu geta komið upp en þær eru mjög fátíðar,“ segir Þórólfur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhætta af bólusetningum margfalt minni en af sýkingu

Þau sem voru bólusett með bóluefni Janssen í sumar hafa fengið boð í örvunarskammt í vikunni. Þá hefur slík bólusetning farið fram á meðal starfsfólks skóla. Fólkið er bólusett með bóluefnum Moderna og Pfizer gegn Covid-19.

Er alveg öruggt fyrir fólk að fá örvunarskammt?

„Alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetningu geta komið upp en þær eru mjög fátíðar. Þessari aukaverkun hefur ekki verið lýst svo ég viti til. Ég held að það þurfi að skoða það í því ljósi og vega upp á móti þeim aukaverkunum sem sjást af sýkingunni sjálfri og geta verið allmiklar,“ segir Þórólfur.

„Við sleppum eiginlega aldrei út úr þessu áhættulaust. Almennt séð er áhættan af bólusetningum margfalt minni en áhættan af aukaverkunum Covid-sýkinga.“

Hafa verið gerðar rannsóknir á öryggi örvunarskammta?

„Já. Þetta byggir allt á tilkynningakerfi í þeim löndum þar sem örvunarskammtar eru gefnir. Yfirleitt eru aukaverkanir af örvunarskömmtum fátíðari en eftir fyrsta skammt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert