Móða valdi áhrifum við lægri styrk

Gosmökkur var áberandi í Geldingadölum aðfaranótt sunnudags.
Gosmökkur var áberandi í Geldingadölum aðfaranótt sunnudags. mbl.is/Baldur

Gosmóða fer að verða landsmönnum ansi kunn en hún hefur legið yfir bæði Suður- og Vesturlandi undanfarna daga. Að sögn Þorsteins Jóhannssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, hefur hins vegar ekki mælst mikil gasmengun en gasmengun, ólíkt gosmóðu, er að mestu ósýnileg og því auðveldara að passa sig á gosmóðunni.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Hins vegar segir Þorsteinn að gosmóðan valdi áhrifum við lægri styrk en gasmengunin. Þá finni fólk sem er miðlungsviðkvæmt ekki fyrir gasmengun fyrr en SO2 mælist nokkur hundruð míkrógrömm í rúmmetra. Gosmóðan, sem mælist sem fínt svifryk eða PM2,5 þarf aftur á móti ekki að fara langt yfir 20 míkrógrömm í rúmmetra svo viðkvæmir finni fyrir gosmóðunni. „En svo getur kannski verið örlítið erfitt að þekkja í sundur venjulega, heiðarlegu þoku frá þessari gosmóðu,“ segir Þorsteinn en bendir á að gosmóðan sé yfirleitt aðeins blágrárri eða stálgrá og sjá megi skil á þokunni ólíkt gosmóðunni sem liggur yfirleitt yfir öllu.

Mælingar uppfærðar á 10–60 mínútna fresti

Þá geti gosmóðan, sem er tveggja til þriggja daga gamall gosmökkur, einnig virkað líkt og þéttir kjarnar í andrúmsloftinu og þannig verið þokuhvetjandi.

Mælingar á loftgæðum eru uppfærðar reglulega, eða á 10 mínútna til klukkustundar fresti, en það er misjafnt eftir mælistöðvum. Áður en gosið hófst voru mælingar alltaf uppfærðar á klukkustundar fresti en að sögn Þorsteins var því breytt eftir að gosið byrjaði og þannig eru til dæmis allar mælingar á Suðurnesjum nú uppfærðar á 10 mínútna fresti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert