Pláss fyrir skimun á vellinum af skornum skammti

Það er nóg að gera í Leifsstöð þessa dagana.
Það er nóg að gera í Leifsstöð þessa dagana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rými til þess að framkvæma sýnatökur vegna Covid-19 á Keflavíkurflugvelli er mjög takmarkað og því verður líklega stórum hluta þess bólusetta fólks sem hefur tengingu við Ísland og þarf að fara í skimun við komuna til landsins vísað í sýnatöku á Suðurlandsbraut. 

Reglur um að bólusettir einstaklingar sem hafa tengingu við Ísland þurfi að fara í skimun við komu til landsins tóku gildi í dag. Heilsugæslan gerir ráð fyrir því að vegna þess muni daglegum sýnum fjölga um 1.000 til 2.000. 

„Það fjölgar hjá okkur, sérstaklega hvað varðar hraðprófin. Við erum bara að búa okkur undir það,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is. 

Frá sýnatöku í Leifsstöð.
Frá sýnatöku í Leifsstöð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Opið í hraðpróf frá klukkan 16 til 20

Á Keflavíkurflugvelli verður boðið upp á PCR-próf en á Suðurlandsbraut hraðpróf. Slík próf verða einnig í boði á öðrum heilbrigðisstofnunum fyrir fólk sem kemur til landsins. Opið verður fyrir komur í hraðpróf á Suðurlandsbraut frá klukkan 16 til 20 frá og með miðvikudegi. 

Ástæðan fyrir því að ekki er boðið upp á hraðpróf á flugvellinum er sú að búnaðurinn sem þarf til þess að taka þau kemst ekki fyrir þar. Hraðpróf skila niðurstöðum á um 30 mínútum en bið eftir niðurstöðum úr PCR-prófi getur verið um sólarhrings löng. 

Svo plássið er af skornum skammti í Keflavík?

„Plássið er af mjög skornum skammti,“ segir Ragnheiður. 

Svo það er líklegt að vísa þurfi mörgum í skimun á Suðurlandsbraut?

„Já, ég gæti alveg trúað því,“ segir Ragnheiður sem bætir því við að mismunandi sé hversu miklar annir séu í sýnatöku eftir því úr hvaða flugi fólk kemur. Ef aðsókn í sýnatökur á Keflavíkurflugvelli er umfram framboð þá er fólki vísað annað. 

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alltaf að bæta í starfsliðið

Eins og áður segir býst heilsugæslan við því að 1.000  til 2.000 sýni verði tekin aukalega vegna nýju reglnanna.

„Alla vega núna á meðan fólk er á faraldsfæti,“ segir Ragnheiður. 

Hafið þið bætt við ykkur starfsfólki vegna þessa?

„Já, við erum alltaf að bæta í. Við grípum hvern starfsmenn sem við náum í.“

Hvernig eru reglurnar?

Bólusettir farþegar sem búa hér á landi eða hafa tengsl við landið eiga að fara í sýnatöku innan við 48 klukkustundum frá því að þeir koma til landsins. Þessir farþegar þurfa, eins og aðrir sem koma til landsins, að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr Covid-prófi fyrir komu. 

Nær þetta til ís­lenskra rík­is­borg­ara, ein­stak­linga sem bú­sett­ir eru hér á landi, ein­stak­linga með at­vinnu­leyfi á Íslandi auk um­sækj­enda um at­vinnu­leyfi eða alþjóðlega vernd á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert