Skora á stjórnvöld að taka á móti fólki frá Afganistan

Stjórn Samtakanna '78.
Stjórn Samtakanna '78. Ljósmynd/Aðsend

Samtökin '78 skora á stjórnvöld til að skuldbinda sig til að taka á móti flóttafólki frá Afganistan og þá sérstaklega hinsegin flóttafólki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

„Talíbanar hafa á síðustu dögum rænt völdum í Afganistan. Þetta þýðir að auk kvenna, sem hafa í einu vetfangi misst öll réttindi sín, er hinsegin fólk í Afganistan nú í enn meiri hættu en áður,“ segir í áskorun samtakanna.

„Í ljósi þeirra hörmulegu atburða sem átt hafa sér stað undanfarna daga skorar stjórn Samtakanna '78 á íslensk stjórnvöld að skuldbinda sig án tafar til þess að taka á móti flóttafólki frá Afganistan og þá sérstaklega hinsegin flóttafólki.

Samtökin '78 hafa í tvígang komið að móttöku hinsegin flóttafólks í samvinnu við stjórnvöld og Rauða krossinn. Við erum tilbúin. En þið?“

Samtökin tvisvar komið að móttöku flóttafólks

„Þetta er auðvitað ömurlegt og við eins og allir erum svolítið hjálparvana í þessum aðstæðum. Við viljum geta veitt hjálparhönd og okkur finnst það vera skylda íslenskra stjórnvalda að veita þessa hjálparhönd,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður samtakanna í samtali við mbl.is.

Hún bætir við að íslensk stjórnvöld hafi tvisvar tekið við hópi af flóttafólki síðustu ár þar sem samtökin hafi komið að móttöku þeirra.

„Við höfum veitt sveitarfélögum og Rauða krossinum ráðgjöf um hvernig eigi að sjá um þessi mál. Síðan hefur flóttafólk getað nýtt sér okkar þjónustu. Við höfum veitt þeim ráðgjöf og sálfræðiþjónustu.“

Þorbjörg Þorvaldsdóttir.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir. Ljósmynd/Samtökin 78
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert