Frá og með deginum í dag þurfa bólusettir farþegar sem búa hér á landi eða hafa tengsl við landið að fara í sýnatöku innan við 48 klukkustundum frá því að þeir koma til landsins. Þessir farþegar þurfa, eins og aðrir sem koma til landsins, að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr Covid-prófi fyrir komu.
Nær þetta til íslenskra ríkisborgara, einstaklinga sem búsettir eru hér á landi, einstaklinga með atvinnuleyfi á Íslandi auk umsækjenda um atvinnuleyfi eða alþjóðlega vernd á Íslandi.
„Umræddir farþegar munu ekki þurfa að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að fólk fari annaðhvort í hraðpróf (antigen) eða PCR-próf, en nánara fyrirkomulag verður unnið í samráði við sóttvarnalækni. Þá verður hægt að fara í sýnatöku annaðhvort á landamærum eða á sýnatökustöð innan tímamarkanna og verður sýnatakan gjaldfrjáls. Heimilt verður að sekta þá einstaklinga sem ekki fara í sýnatöku innan tiltekins tíma,“ segir á vef heilbrigðisráðuneytisins um málið.
„Samkvæmt upplýsingum frá embætti sóttvarnalæknis hafa um 90% þeirra einstaklinga sem greinst hafa með COVID-19 frá 1. júlí íslenska kennitölu. Mikilvægt er að tryggja varnir gegn nýjum afbrigðum veirunnar og því er þessi ákvörðun tekin. Áfram verður gerð krafa um framvísun neikvæðs COVID-prófs á landamærum en tvöföld sýnataka með nokkurra daga millibili hefur reynst vel í faraldrinum.“
„Útfærslan verður núna unnin með sóttvarnayfirvöldum og við erum þá að horfa til þess að þetta eru íslenskir ríkisborgarar eða fólk með fasta búsetu hér, eða fólk sem er að koma hingað til lengri tíma til vinnu eða eitthvað slíkt,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is þegar reglurnar voru kynntar 6. ágúst síðastliðinn.
„Þetta gerum við á þeim rökstuðningi sem við höfum fengið frá sóttvarnalækni að fólk sem er í miklum tengslum við samfélagið sé líklegra til að dreifa smitum. Við erum líka að heyra það mjög skýrt frá sérfræðingum að það skiptir miklu máli að þétta þessar varnir gegn nýjum afbrigðum.“
Óbólusettir þurfa áfram að fara í tvöfalda skimun við komuna til landsins með fimm daga sóttkví á milli skimana.