Um 140 einstaklingar með erlent ríkisfang eru í eftirliti Covid-19-göngudeildar Landspítala. Þar af er um þriðjungur bólusettir einstaklingar frá Ísrael. Fimm þeirra hafa þurft innlögn á Landspítala.
Þetta kemur fram í svari Landspítala við fyrirspurn mbl.is.
Eins og greint var frá í morgun er hópur ísraelskra ferðamanna hér á landi smitaður af kórónuveirunni. Útlit er fyrir að einn úr hópnum hafi smitast í flugi á leið til Íslands og svo smitað hina.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í morgun að nokkrir utan hópsins hafi smitast. Þá hafi nokkrar hópsýkingar af þessu tagi, innan lokaðra hópa erlendra ferðamanna, komið upp.