Við þessar aðstæður má lítið út af bregða

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. mbl.is/Árni Sæberg

Vatnshæð í Þórisvatni á þessum árstíma hefur aldrei mælst lægri en í sumar að sögn Landsnets. Það segir að Landsvirkjun hafi réttilega bent á að ekki þurfi að óttast raforkuskort í vetur en staðan í Þórisvatni sé áminning um mikilvægi þess að geta flutt raforku milli landshluta hverju sinni.

Á sama tíma og vatnshæð er óvenju lág í Þórisvatni sé staða miðlunarlóna á Norður- og Austurlandi ágæt. Þetta valdi gríðarlegu álagi á byggðalínuna sem komin er að þolmörkum.

„Rekstur byggðalínunnar hefur verið þungur í sumar en orkuflutningar á milli landshluta þar sem lónstaðan er góð og þangað sem hún er verri hefur valdið því að flutningur hefur verið við öryggismörk í allt sumar,“ er haft eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets.

Raforkukaupendur geta orðið fyrir truflunum

Við þessar aðstæður megi lítið út af bregða til að raforkunotendur verði fyrir truflunum. Mikið álag eða fullnýting lína eykur flutningstöp og leiðir til að verri nýtingar virkjana. Þetta hefur í för með sér lakari árangur í umhverfis- og loftslagsmálum auk þess sem kostnaður við orkukaup vegna flutningsins eykst verulega.

Veðurlag á Suður- og Vesturlandi er gjarnan frábrugðið því sem er á Norður- og Austurlandi. Þetta birtist greinilega í mismunandi stöðu miðlunarlóna í hverjum landshluta.

Uppbygging flutningskerfis raforku brýn

„Sú staða sem nú er uppi sýnir hversu brýn uppbygging flutningskerfis raforku er, sérstaklega tenging landshlutanna. Við hjá Landsneti höfum lengi bent á nauðsynlega endurnýjun byggðalínunnar, sem nú er yfir 40 ára gömul, þannig að við getum mætt betur áskorunum framtíðarinnar vegna loftslagsbreytinga og rafvæðingar,“ segir Guðmundur Ingi ennfremur

Þá kemur fram, að nú sé unnið við tvo stóra áfanga uppfærslu nýrrar kynslóðar byggðalínunnar. Fyrst sé að nefna tengingu á milli  Kröfluvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar, um Hólasand, til Akureyrar. Þessar framkvæmdir gangi vel og þegar þeim ljúki verði staðan önnur og betri á Norðaustur- og Austurlandi, þar sem litlir möguleikar hafa verið á að auka raforkunotkun. Um leið verður raforkukerfið stöðugra og þolnara gagnvart áföllum.

Nánar á vef Landsnets. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert