Vinnustaður Árna hýsir höfuðstöðvar talíbana

Talíbanar standa vörð á strætum Kabúl í dag en þeir …
Talíbanar standa vörð á strætum Kabúl í dag en þeir tóku yfir borgina í gær. AFP

„Þrátt fyrir að hafa vakað í 48 klukkustundir þá finnst mér ég hafa afkastað afskaplega litlu,“ segir Árni Arnþórs­son, aðstoðarrektor háskólans American Uni­versity of Af­ghan­ist­an í Kabúl.

Hann er nú staddur í Madríd en vinnur hörðum höndum að því að reyna að koma samstarfsfélögum og nemendum í Kabúl úr landi.

Talíbanar ganga um þessar mundir á milli heimila og banka upp á eða brjóta niður hurðir í leit að fólki sem tengist háskólanum.

„Allir tengdir háskólanum óttast að vera drepnir,“ segir Árni.

Þrír starfsmenn skólans komust úr landi í gær, þar af tveir undirmenn Árna sem hann kveðst hafa haft miklar áhyggjur af.

Árni hefur ekki fest svefn í 48 klukkustundir.
Árni hefur ekki fest svefn í 48 klukkustundir. Ljósmynd/Aðsend

Bíða í aðalstöðvum öryggisfyrirtækis

Þrír starfsmenn skólans sem ekki eru frá Afganistan eru enn fastir úti. Frakki, Breti og Filippseyingur. Árni hefur unnið sleitulaust að því að reyna að koma þessu fólki úr landi en án árangurs.

Það bíður nú í aðalstöðvum öryggisfyrirtækis sem háskólinn er í samstarfi við.

Þar bíða einnig fimm nemendur sem öryggisfyrirtækið getur ekki hjálpað sökum strangra reglna sem taka fyrir það að hægt sé að flytja almenna afganska borgara úr landi.

„Þeir munu ekki heldur taka þennan frá Filipseyjum en kannski hina tvo,“ segir Árni.

Fá lönd tilbúin að taka við vegabréfslausu fólki

Ferlið að koma fólki úr landi er erfitt og því hefur Árni fengið að kynnast. Það þarf að fá sérstök björgunarflug en bara tryggingin fyrir þeim kostar gífurlegar fjárhæðir.

Þegar búið sé að fjármagna hana þá þurfi að tryggja að flugvélin muni geta lent einhvers staðar á leið sinni frá Kabúl með fólkið. Til þess þurfi að útvega leyfi frá landi sem er tilbúið að taka á móti fólki sem hefur hvorki landvistarleyfi né vegabréf.

„Það eru ekki mörg lönd, við fengum slíkt leyfi hjá einu landi sem setti svo á það verðmiða upp á átta milljónir dollara.“

Árni segist vera í sambandi við annað ríki núna en óttast að það muni líka krefjast sambærilegrar upphæðar.

„Búinn að vera að leika Guð undanfarið“

Hann bindur vonir um að þetta muni ganga eftir og hann geti þá hjálpað hundruðum að flýja Afganistan, að megninu til nemendum.

Árni er búinn að ræða við háskóla í öðrum löndum og fá hjá þeim vilyrði fyrir því að taka við nemendum, komi hann þeim inn til landsins. Það er þó ekki á valdi háskólanna að opna landamærin fyrir þeim.

Árni getur ekki bjargað öllum, þó yfir hann rigni skilaboðum frá fólki í Afganistan sem biður um aðstoð við að komast úr landi.

„Ég er búinn að vera að leika Guð undanfarið, en það er ekki eitthvað sem ég myndi vilja leggja á nokkurn mann.“

Falskar vonir og tóm sæti

Um helgina útbjó Árni kerfi til þess að meta hverjir væru í mestri hættu. Það notaði hann svo til að gera lista yfir þá sem hann mun geta boðið aðstoð.

„Þetta er mest kvenfólk og ákveðnir kynþættir sem eru sérstaklega ofsóttir af talíbönum.“

Einnig þurfi að líta til þess hvort fólk komist yfir höfuð á flugvöllinn. Hann hefur til að mynda ekki samband við fólk sem býr of langt í burtu enda hefði það aðeins í för með sér falskar vonir fyrir þá einstaklinga og tóm sæti í öryggisfluginu.

Táknrænar höfuðstöðvar

Árni segir að lengst af hafi spáin gengið eftir hvað varðar yfirtöku talíbana, um að þeir myndu smám saman sölsa undir sig meiri völd í landinu.

„Það sem hefur gerst síðastliðnar tvær vikur gat enginn séð fyrir.“

Eins og hendi væri veifað náðu talíbanar völdum yfir höfuðborginni Kabúl í gær, nánast átakalaust.

Árni hafði búist við því að starf skólans, sem staðsettur er í Kabúl, færi af stað í þessum mánuði, en nú hafa talíbanar takið yfir háskólasvæðið og gert það að höfuðstöðvum sínum í suðurhluta Kabúl.

Byggingar, sem áður hýstu háskólanemendur, hýsa nú skrifstofur talibana.

Árni telur þetta enga tilviljun. Talíbanar höfðu gefið út að allir sem störfuðu fyrir háskólann væru réttdræpir. Að setja upp höfuðstöðvar sínar í háskólabyggingunni sé því táknrænt.

„Þannig sýna þeir að þeir hafi unnið.“

Frá borginni Kabúl í Afganistan.
Frá borginni Kabúl í Afganistan. AFP

Herinn vonbrigði

Að sögn Árna yfirgáfu allir starfsmenn háskólasvæðið í gær því von var á talíbönum þangað á hverri stundu.

„Það var ekki grundvöllur fyrir því að hafa fólk á staðnum sem væri bara að verja byggingar og eignir. Það sem hefur komið í ljós er að þessi 300.000 manna her sem átti að vera flottur og þjálfaður, stendur engan veginn undir nafni.“

Bandarísk yfirvöld hafi gert meira úr ágæti hersins til að réttlæta það fjármagn sem sett hefur verið í uppbyggingu hans.

„Það er augljóst að þetta er allt saman pólitískt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka