Aðeins 6.500 sem mættu

Og þá var tómt í höllinni.
Og þá var tómt í höllinni. mbl.is/Karítas Ríkharðsdóttir

Ansi dræm þátttaka hefur verið í bólusetningum frá því að ráðist var í örvunarbólusetningar Janssen-þega í Laugardalshöll og á Suðurlandsbraut í gær, samkvæmt upplýsingum Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Það voru um 11.000 manns sem höfðu fengið boð um að mæta í bólusetningu með bóluefni Moderna í dag en aðeins 6.500 þeirra mættu,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is.

Þegar þátttakan í bólusetningum er jafn dræm og hún hefur verið er erfiðara að áætla hve marga bóluefnaskammta skal blanda hvern dag, að sögn Ragnheiðar.

„Það urðu um 1.000 skammtar afgangs eftir daginn í gær en við náðum sem betur fer að koma svo á hjúkrunarheimilin,“ segir Ragnheiður. „Þannig við vorum svolítið varkár við að blanda skammta í dag. Við vorum að blanda skammta jafnóðum, eftir þörfum í lok dags, sem olli því að fólk þurfti að bíða örlítið síðasta klukkutímann. Við vildum nefnilega ekki enda með umframskammta sem við þyrftum svo að henda.“

Óljóst hvers vegna dregið hefur úr þátttöku

Aðspurð segist Ragnheiður ekki vita hvers vegna dregið hafi úr þátttöku í bólusetningum á undanförnum misserum.

„Hvort að fólk telji sig bara vera fullbólusett og vilji ekki fá örvunarskammtinn eða hvað það er, veit ég ekki. Það geta verið mismunandi ástæður fyrir því,“ segir hún. „Það var svo sem vitað að ákveðinn hluti þessa hóps sem var boðaður í örvunarskammt í vikunni ætti kannski ekki heimangengt einmitt núna, má þar nefna sjómenn og þá sem starfa í flugbransanum. Því vorum við búin að reikna með að mætingin yrði í kringum 80% en hún hefur reynst vera nær 50%.

Fólk hefur ekki val um hvaða bóluefni það fær

Janssen-þegar hafa ekki val um það hvort bóluefnið það fær í örvunarskammt, segir Ragnheiður innt eftir því.

„Við höfum tekið m-RNA-bóluefnin Moderna og Pfizer jöfnum höndum og valið eitt efni fyrir hvern dag eftir því hvaða efni hefur lengstan fyrningartíma. Síðastliðna tvo daga vorum við að bólusetja með Moderna en á morgun verður það Pfizer.“

Ellefu þúsund Janssen-þegar hafa verið boðaðir í örvunarbólusetningu á morgun og bindur Ragnheiður vonir um að þátttakan verði betri þá en hún hefur verið fram að þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert