Breyta þurfi reglum svo skólastarf lamist ekki ítrekað

Nemendur á leið í skóla.
Nemendur á leið í skóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þær ráðstafanir sem nú eru viðhafðar um sóttkví munu fela í sér stórkostlegar takmarkanir á skólahaldi með tilheyrandi raski fyrir fólk, fjölskyldur og vinnustaði þeirra, að því er Samtök atvinnulífsins greina frá í tilkynningu. Breyta þurfi gildandi reglum um sóttkví sé ætlunin ekki að lama skólastarf hér ítrekað í vetur, að mati samtakanna.

Samtökin fordæma það verklag sem nú er viðhaft hér á landi, komi upp smit á leikskólum, en það er að loka heilum deildum og í einhverjum tilfellum nærliggjandi deildum, sem hefur valdið því að fullbólusettir foreldrar hafa þurft að sæta sóttkví auk annarra barna á heimilum landsins þar sem erfitt reynist að einangra útsett börn frá öðrum fjölskyldumeðlimum. Þá lýsa samtökin yfir áhyggjum af því að áþekk framvinda verði þegar grunn- og framhaldsskólar hefjast að nýju á næstu dögum.

Fleiri en ein leið til að takast á við vandann

Í tilkynningunni bera samtökin það verklag sem haft er uppi hér á landi saman við það verklag sem nágrannaþjóðir okkar hafa haft uppi til að bregðast við vágestinum sem kórónuveirufaraldurinn er. Er það gert í þeim tilgangi að varpa ljósi á að til séu fleiri leiðir til að takast á við vandann.

Samtökin minnast til að mynda á það að fullbólusettir borgarar í Englandi og Norður-Írlandi þurfi ekki lengur að fara í sóttkví ef þeir komast í návígi við manneskju sem sýkst hefur af veirunni. Það sama eigi við um börn undir 18 ára aldri. „Í stað þess að fara í 10 daga sóttkví er þeim tilmælum beint til þeirra að taka PCR-próf, en þó er það ekki skylda. Þá er þeim ráðlagt að setja upp grímu þar sem ekki er hægt að virða fjarlægðarmörk,“ segir í tilkynningunni.

Í Danmörku sé svo sú meginregla í gildi að skólum eða dagvistunarheimilum sé ekki lokað þrátt fyrir að þar komi upp smit, með fyrirvara um að á því megi gera undantekningar sé smitið útbreitt.

Þá gildi engar sérstakar reglur í Svíþjóð hvað skóla varðar heldur séu almenn tilmæli til fólks þar að fara varlega. Ef kennari smitast sé heilum deildum ekki lokað og leikskólabörn ekki send í PCR-próf.

Í Noregi sé svo reynt eftir fremsta megni að forða börnum yngri en 18 ára frá sóttkví en að öðru leyti séu reglur áþekkar og á Íslandi.

Telja hraðpróf hljóta að koma til álita

Samtök atvinnulífsins benda þó á að skólastarf hér á landi hafi ekki verið takmarkað sérstaklega með framlengingu reglugerðar heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir, ef frá eru taldar sérreglur um grímunotkun og að persónubundnar sóttvarnir og ábyrg hegðun í umgengni við veiruna muni áfram reynast okkur farsælasta vopnið gegn Covid-19.

Til að geta lifað með veirunni áfram hér á landi, án mikilla raskana á skólastarfi og þar með samfélaginu í heild, þurfi þó að endurskoða þau úrræði sem eru í boði.

Hægt er að velja vægari úrræði en sóttkví heilu og hálfu árganganna í senn. Hraðpróf hljóta að koma til álita eins og hjá öðrum þjóðum. Dæmin frá nágrannalöndum okkar sýna að það eru fleiri en ein leið í boði,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert