Erfitt að segja til um rénun bylgjunnar

Virkum og staðfestum kórónuveirusmitum hefur fækkað umtalsvert undanfarna viku. Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans, segir erfitt að segja til um hvort þessi bylgja faraldursins sé í rénun. Of snemmt sé að segja til um það, en smittölur í dag og á morgun gætu gefið vísbendingu um hvert faraldurinn stefni.

„Við vonum að staðan fari að skána. Fjöldi smita var lægri um helgina en hafði verið vikuna á undan en við höfum séð það oft um helgar, þar sem þá eru færri sýni tekin. En smitum fækkaði líka á föstudaginn þannig að það verður mjög fróðlegt að sjá hver staðan verður í dag,“ segir Runólfur í samtali við Morgunblaðið í dag.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir fækkun smita ánægjulega en kveðst ekki viss um að það sé hægt að túlka smittölurnar þannig að faraldurinn sé á niðurleið.

„Við erum enn þá með tiltölulega hátt hlutfall af jákvæðum sýnum, um 3 til 4%. Enn greinist um helmingurinn utan sóttkvíar sem segir okkur að það sé meiri útbreiðsla í samfélaginu,“ segir Þórólfur og bætir við að bíða þurfi með að leggja einhverja vigt í þessar tölur helgarinnar. „Vissulega eru þetta ánægjulegar tölur og við erum allavega ekki að sjá uppsveiflu.“

Stundum áður fengið bakslag

Runólfur segir fjölda fólks enn í eftirliti Covid-göngudeildarinnar og þótt útlitið sé gott þá geti ástand fljótt breyst til hins verra, þar sem oft versni einkenni sjúklinga hratt. Hann segir stöðuna þó mun betri síðustu tvo daga á spítalanum þar sem innlögnum hafi ekki fjölgað.

„En allt í einu geta komið þrjár til fjórar innlagnir að kvöldi til, þótt allt hafi litið vel út um morguninn.“

Runólfur er vongóður um að bylgjan taki að dvína á næstu vikum en erfitt sé að spá um þróun faraldursins vegna margra óvissuþátta. Hann telur styttingu einangrunar hjá bólusettum og óbólusettum úr fjórtán dögum niður í tíu, að því gefnu að þeir hafi verið einkennalausir í minnst þrjá daga, hafi haft áhrif á skráðan fjölda virkra smita síðustu viku.

„Maður er að vona að þetta sé til marks um það að þessi bylgja sé farin að réna. Það er of snemmt að lýsa því yfir hver þróunin verður. Við höfum stundum áður fengið bakslag þegar við höfum haldið að helgarnar hafi litið vel út, þannig að maður þorir ekki að fullyrða um þetta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert