Flóttamannanefnd segist þurfa meiri tíma

Fjöldi afganskra borgara hafa reynt að flýja land vegna neyðarástands …
Fjöldi afganskra borgara hafa reynt að flýja land vegna neyðarástands sem þar hefur skapast vegna yfirtöku Talíbana á fjölda héraða landsins undanfarnar vikur og daga. AFP

Flótta­manna­nefnd stjórn­ar­ráðsins kom sam­an kl. 15 í dag til að ræða stöðuna sem nú er uppi í Af­gan­ist­an og hvaða möguleika Ísland hafi til að koma þar til aðstoðar. Þótt vel hafi gengið að funda þarf nefndin meiri tíma til að fullmóta tillögur sínar um aðgerðir sem verða svo lagðar fyrir ríkisstjórn, segir Stefán Vagn Stefánsson, formaður flóttamannanefndarinnar, í samtali við Morgunblaðið.

„Fundurinn var bara mjög góður og upplýsandi um stöðuna en við þurfum aðeins meiri tíma til að geta mótað okkar hugmyndir og koma með skýrar tillögur til ríkisstjórnarinnar. Þannig að við ætlum að gefa okkur kvöldið og morgundaginn í það,“ segir Stefán. „Það verður væntanlega boðað aftur til fundar með nefndinni á fimmtudaginn, þá verðum við komin með aðeins meira í hendurnar til að vinna úr.“

Vilja vinna þetta eins hratt og hægt er

Stefán var ekki tilbúinn að greina frá því hvaða hugmyndir voru ræddar á fundinum í dag, inntur eftir því. Það sé þó vilji nefndarinnar að bregðast við eins hratt og mögulegt er.

„Ég held að það væri mjög óvarlegt af mér að fara að ræða einhverjar hugmyndir sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um að framkvæma, þetta er bara þannig mál. Þetta er gríðarlega erfitt og mjög flókið en það er mikill vilji hjá öllum í nefndinni að vinna þetta eins hratt og hægt er og koma þá með tillögur fyrir ríkisstjórnina um hvaða leiðir við sjáum færar til þess að leggja okkar af mörkum í þessu verkefni,“ segir hann.

Spurður segir Stefán ekki hægt að fullmóta tillögurnar á einum degi þótt það væri ákjósanlegtast, enda um flókið og vandmeðfarið mál að ræða.

„Þær ákvarðanir sem verða teknar verða því að vera teknar að mjög ígrunduðu og vel rökstuddu máli. Þótt allir vilji að hlutirnir gerist í dag þá þurfum við þennan tíma til þess að vinna þetta aðeins betur og fá heildrænni sýn á það hvernig staðan er áður en við getum lagt fram einhverjar formlegar tillögur til ríkisstjórnarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert