Mannvistarleifar frá 10.-13. öld hafa komið í ljós á óvæntum stað við fornleifarannsókn í landi Fjarðar í Seyðisfirði. Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur hjá Antikva, hefur stjórnað þessum rannsóknum og segir hún að fundurinn komi á óvart. Hún segist telja að hluti minjanna sé frá 10. og 11. öld og að um sé að ræða sjóminjar sem vitni um fiskverkun á staðnum í tengslum við sjósókn. Ekki var búist við að finna miðaldaminjar og minjar aftur í landnám á þessu svæði.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Ragnheiður segir að niðurstöður forkönnunar í fyrra hafi leitt í ljós að þarna væru helst minjar frá 18. og 19. öld en gjóska undir þeim frá Veiðivatnagosi 1477 hafi bent til þess að þarna hefði ekki verið byggt fyrr en eftir að sú gjóska féll. Nú hafi hins vegar komið í ljós tveggja metra lag mannvistarleifa og auk gangabæjar frá 16.-18. öld séu þar mun eldri byggingaskeið frá því fyrir 1362, en það ár varð mikið gos í Öræfajökli með tilheyrandi öskufalli.
Ragnheiður segir að rannsóknum verði haldið áfram næstu vikur, en til stóð að hætta uppgrefti ársins í þessari viku. Áætlað er að verkefninu ljúki næsta sumar.
Svæðið sem nú er til rannsóknar er í landi Fjarðar, staðsett norðvestan við gamla bæjarstæðið Fjörð þar sem talið er að landnámsmaðurinn Bjólfur hafi byggt. Ragnheiður segir að þarna hafi verið vísir að þorpi sem varð fyrir snjóflóði úr Bjólfi árið 1885 og fórust þá 24 manns.
Í sumar hefur eitt þeirra bæjarstæða sem fóru undir snjóflóðið verið grafið upp og segir Ragnheiður mikilvægt að rannsaka vandlega þær fáu minjar sem til eru frá snjóflóðinu. Vitað hafi verið að þarna væru nokkur byggingaskeið frá því fyrir og eftir snjóflóðið en enginn hafi átt von á að finna minjar allt aftur til 10. aldar.
Eftir snjóflóðið voru bústaðir manna færðir neðar og svæðið aðallega nýtt undir ýmiss konar mannvirki tengd búskap, auk þess sem þar eru herminjar sem vitna um hersetu Breta og Bandaríkjamanna. Á rannsóknarsvæðinu finnast því margvíslegar minjar sem spanna alla Íslandssöguna.
Í sumar hefur líka verið grafin upp mylla frá tímabilinu 1800-1870, þegar Íslendingar fóru að flytja inn korn og mala það sjálfir. Ragnheiður segir mögulegt að endurgera mylluna, en gert hefur verið þrívíddarmódel af henni.