Hlusti ekki á persónuleg samskipti lögreglumanna

mbl.is/Kristinn Magnússon

Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur skrifað bréf til lögreglumanna þar sem hún áréttar að einungis sé skoðað efni úr búkmyndavélum lögreglumanna sem sé umkvörtunarefni borgara. Nefndin hlusti ekki á „persónuleg samskipti lögreglumanna sín á milli um daginn og veginn“.

Bréfið var birt á vef nefndarinnar fyrir helgi en ætla má að það sé sent vegna skoðunar nefndarinnar á upptökum úr búkmyndavélum tveggja lögreglumanna í Ásmundarsalarmálinu. RÚV greindi fyrst frá. 

Taldi nefndin að háttsemi lögreglumannanna umrætt kvöld hefði verið ámælisverð eftir að búkmyndavélar mannanna voru skoðaðar. 

Fjöln­ir Sæ­munds­son, formaður Lands­sam­bands lög­reglu­manna, sagði í samtali við mbl.is í júní að mikil reiði væri á meðal lögreglumanna yfir rannsókn nefndarinnar. Honum þætti óeðli­legt að nefnd­in hefði skrifað orðrétt upp per­sónu­leg sam­töl lög­reglu­mann­anna í skýrsl­una sem síðan komst í hend­ur fjöl­miðla. Því sendi sam­bandið bréf á Per­sónu­vernd og á eft­ir­lits­nefnd­ina sjálfa.

Hvetja lögreglumenn til að nota myndavélarnar

Í bréfi eftirlitsnefndarinnar segir:

„Í verklagsreglum um búkmyndavélar kemur m.a. fram að eitt af markmiðum með notkun vélanna sé að varpa ljósi á málsatvik þegar ágreiningur er um atvikalýsingu af vettvangi.“

Þá segir að nefndin hvetji lögreglumenn til að nota myndavélarnar, meðal annars þar sem þær geri nefndinni kleift að sinna starfi sínu með nákvæmari hætti og verndi lögreglumenn í störfum sínum.

Nefndin telji rétt að fullvissa lögreglumenn um að persónuleg samskipti séu ekki skoðuð „nema það varði skýra afstöðu lögreglumannanna eða framkomu gagnvart þeim sem afskiptin voru höfð af“.

Þá mun stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd Alþing­is funda um hvort nefnd um eft­ir­lit með lög­reglu hafi farið fram úr heim­ild­um við rann­sókn sína á störf­um lög­reglu­manna sem komu í Ásmund­ar­sal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka