Kennarar uggandi að mæta til vinnu

Skólahald í grunnskólum hefst í vikunni.
Skólahald í grunnskólum hefst í vikunni. Haraldur Jónasson / Hari

„Staðan er grafalvarleg og ég heyri það á mínu fólki að það er uggandi að mæta í vinnu,“ segir Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður félags grunnskólakennara, í samtali við mbl.is en grunnskólar hefja göngu sína í vikunni með eins hefðbundnu sniði og hægt er.

Senda þurfti marga í sóttkví í síðustu viku vegna leikskóla- og frístundastarfs.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.

„Reykjavíkurborg hvetur skólastjórnendur til að fækka enn frekar í hópum og reyna að gera allt sem þeir geta til þess að mögulega stúka af. Hins vegar er það ekkert endilega ákvörðun sem hefur verið tekin í öðrum sveitarfélögum og ég hef fréttir af því að kennarar eru boðaðir á stóra staðfundi á mánudag. Þeir hafa því miklar áhyggjur af því að skólastarf komist kannski ekki af stað,“ segir Þorgerður og nefnir að bæði óttist kennarar smit hjá nemendum og starfsfólki.

„Við höfum fordæmi frá því síðasta haust þegar á fyrstu starfsdögum kennara urðu fjöldasmit.“

Gæti þurft að grípa til fjarkennslu

Eruð þið við því búin að færa kennslu yfir í fjarkennslu?

„Við erum undir því komin að grunnskólinn er lögboðið skólastig. Nemendur eiga að vera í skóla og þeir eiga að fá ákveðna kennslu eftir aðalnámskrá. Þannig að það er mjög erfitt að skipuleggja skólastarf þannig að nemendur fái fullt nám nema grípa til margvíslegra úrræða eins og til dæmis fjarkennslu,“ segir Þorgerður en bætir við að þreyta sé komin í fólk.

„Allt hjálpar“

Í síðustu viku kláruðust bólusetningar á skólastarfsfólki sem fékk örvunarskammt. Eftir helgi verða börn á aldrinum 12 til 15 ára bólusett í Laugardalshöll. Þorgerður segist fagna þessum bólusetningum.

„Allt hjálpar í stöðunni og við hvetjum alla til að fara í bólusetningu. Það eru hins vegar margir kennarar með undirliggjandi sjúkdóma og hafa ekki fengið örvunarskammt af því þeir fengu ekki Janssen. Það fólk er auðvitað ennþá hræddara núna þegar vitað er að börn smitast og smita út frá sér,“ segir Þorgerður og nefnir að það hafi ekki verið ljóst síðasta vetur.

„Þetta er allt önnur staða sem er uppi núna. Það er þungt hljóðið í mínu fólki og það er raunverulega hrætt, það er bara þannig,“ segir Þorgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert