Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, og Már Kristjánsson yfirlæknir hafi skilað minnisblaði til heilbrigðisráðherra í gær um stöðu mála á spítalanum í fjórðu bylgju Covid-19-faraldursins.
Jafnframt var gerð grein fyrir spá um þróun faraldursins eins og hún lá fyrir en hún er unnin í samstarfi Háskóla Íslands og Landspítala, að því er segir á vef spítalans.
Sjúklingum sem liggja inni á Landspítala vegna Covid-19 hefur fækkað um þrjá á milli daga. Nú liggja 27 inni á spítalanum, 21 á bráðalegudeildum og er þriðjungur þeirra óbólusettur.
Staðan á gjörgæslu er sú sama en þar eru sex sjúklingar, fimm eru bólusettir. Fimm eru nú í öndunarvél og eru fjórir þeirra bólusettir.
Þá hefur virkum smitum fækkað um ellefu frá því í gær en 1.162 eru nú í eftirliti, þar af 233 börn. Fjórir sjúklingar eru metnir rauðir og 38 einstaklingar gulir og þurfa nánara eftirlit.
15 starfsmenn Landspítala eru í einangrun með virkt smit, 22 í sóttkví og 68 í vinnustaðasóttkví.
Alls hafa 77 sjúklingar lagst inn á Landspítala með Covid-19 í fjórðu bylgju faraldursins, um þriðjungur er óbólusettur. Tólf hafa þurft að leggjast inn á gjörgæslu.