Töluverð bið getur verið eftir tíma hjá heyrnarfræðingum hér á landi. Biðin er mislöng eftir því hvort um er að ræða börn eða fullorðna og svo hvers kyns þjónustu fólk sækist eftir, að sögn Ingibjargar Hinriksdóttur, yfirlæknis hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
„Það er lítill sem enginn biðtími fyrir börn en það getur verið töluverð bið fyrir fullorðna, eða einhverjir mánuðir,“ segir Ingibjörg í samtali við Morgunblaðið.
Skýring á biðinni er skortur á starfandi sérfræðingum í faginu en heyrnarfræði er ekki kennd hér á landi, að sögn Ingibjargar.
„Endurteknar viðræður hafa verið við háskólann um mikilvægi þess að hefja kennslu í heyrnarfræði hér en háskólinn hefur ekki talið sig geta hafið þetta nám hér á landi enn þá,“ segir hún.
Erlendum sérfræðingum, sem hafa starfað við fagið hér á landi, hefur fækkað í kórónuveirufaraldrinum. Hefur það lengt biðlistana hjá heyrnarfræðingum enn frekar.